Innlent

„Mál að linni“

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Helgi Magnús Gunnarsson er vararíkissaksóknari.
Helgi Magnús Gunnarsson er vararíkissaksóknari. Vísir/Arnar

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari segir gott að niðurstaða fáist í mál hans en að viðbrögð hans fari eftir því hver hún verður. Mál sé að linni.

Dómsmálaráðherra sagði í viðtali á Sprengisandi í morgun að niðurstaða fáist í mál vararíkissaksóknara á næstu dögum. Helgi Magnús kom aftur til starfa í desember eftir að hafa verið frá störfum síðan síðasta sumar, fyrst að kröfu Sigríðar J. Friðjónsdóttur ríkissaksóknara og svo í skömmu veikindaleyfi.

Síðan þá segist hann ekki hafa fengið nein verkefni í hendurnar og að honum hafi ekki verið hleypt inn í tölvukerfi embættisins. Mál hans hefur verið til meðferðar í dómsmálaráðuneytinu undanfarna mánuði en dregist á langinn, meðal annars vegna ráðherraskipta í kjölfar þingkosninga í nóvember.

Helgi Magnús segist vera í samtali við ráðuneytið og því hafi ummæli ráðherra í morgun ekki hafa komið á óvart.

„Það er svo sem mál að linni. Það er gott ef það kemst niðurstaða í málið, en það fer eftir hver hún er,“ segir hann í samtali við fréttastofu.

„Þetta er búið að hanga yfir mér í 10 mánuði og það er ekki eftirsóknarvert.“ segir Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×