Innlent

Mjög al­var­legt til­felli

Jón Þór Stefánsson og Bjarki Sigurðsson skrifa
Vernharð Guðnason stýrði aðgerðum á vettvangi.
Vernharð Guðnason stýrði aðgerðum á vettvangi. Vísir/Sigurjón.

Vettvangsstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu segir að eldur sem kom upp í blokk við Hjarðarhaga í Vesturbæ Reykjavíkur hafi verið mjög alvarlegt tilfelli. Þrír voru fluttir á slysadeild. Að minnsta kosti einn þeirra var með meðvitund.

Vernharð Guðnason, vettvangsstjóri hjá slökkviliðinu, segir í samtali við fréttastofu á vettvangi að þeim hafi verið tilkynnt um eld í fjölbýli og í þannig tilfellum sé alltaf mikið viðbragð.

Hann segir að strax hafi komið fram að fólk væri inni í íbúðinni. Þrír voru inni í íbúðinni og voru allir fluttir á slysadeild.

„Því miður er þetta mjög alvarlegt tilfelli,“ sagði Vernharð. Hann segir að einn þessara þriggja hafi verið í þannig ástandi að hann gat gefið upplýsingar um að fleiri væru inni.

Grunur er um að sprenging hafi komið upp í húsinu, en ekki er vitað hvað olli eldinum, eða þá sprengingunni, að svo stöddu. Vernharð segir að þegar sprenging komi upp séu ýmsar mögulegar orsakir.

Þarna hafi verið töluverður eldur og slökkviliðið stóð sig mjög vel að sögn Vernharðs. Ekki var talin hætta á því að eldurinn myndi breiðast út.

Mynd frá vettvangi.Vísir/Anton



Fleiri fréttir

Sjá meira


×