Þetta er fimmti fundurinn í röð sem meginvextir bankans eru lækkaðir frá því að vaxtalækkunarferlið hófst í október í fyrra en ákvörðunin núna var studd af öllum fimm nefndarmönnum. Vextirnir standa í 7,5 prósent og hafa því lækkað um 175 punkta á því tímabili.
Nokkur óvissa var um ákvörðun peningastefnunefndar í morgun en á meðan mikill meirihluti markaðsaðila taldi víst að vextirnir yrðu lækkaðir, meðal annars eins og kom fram í könnun Innherja, þá voru skiptar skoðanir hjá hagfræðingum bankanna. Frá því að nefndin hittist á fundi sínum um miðjan marsmánuð, þegar vextir voru einnig lækkaðir um 25 punkta, er tólf mánaða verðbólgan á sama stað og þá. Hún hækkaði meira en búist var við í apríl, eða úr 3,8 í 4,2 prósent.
Í yfirlýsingu nefndarinnar er rifjað upp að verðbólgan sé samt búin að lækka mikið frá því sem hún var mest fyrir um tveimur árum. Samkvæmt nýbirtri spá Seðlabankans mun hún haldast nálægt fjögur prósent út árið en taka síðan að hjaðna í markmið. „Óvissa um verðbólguhorfur er þó áfram mikil, ekki síst vegna nýlegra vendinga í alþjóðlegum efnahagsmálum,“ segir nefndin.
Þá nefnir hún að hægt hafi á vexti innlendrar eftirspurnar í takt við þétt taumhald peningastefnunnar.
„Spennan í þjóðarbúinu hefur því minnkað jafnt og þétt eins og sjá má á hægari umsvifum á húsnæðis- og vinnumarkaði. Enn virðist þó vera nokkur þróttur í efnahagsumsvifum sem endurspeglast meðal annars í nýbirtum kortaveltutölum. Þá mælist töluverð hækkun launakostnaðar og þótt verðbólguvæntingar hafi lækkað eru þær áfram yfir markmiði.“
Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans, sem birtist í Peningamálum, er talið að árinu 2025 í heild verði eitt prósent hagvöxtur sem er 0,6 prósentum minni vöxtur en spáð var í febrúar. Lakari horfur skýrast einkum af grunnáhrifum meiri umsvifa í fyrra og neikvæðum áhrifum viðskiptastríðsins en meiri vöxtur einkaneyslu vegur á móti. Þá er búist er við að verðbólga minnki í 3,8 prósent á þriðja fjórðungi en verði heldur meiri á næstu fjórðungum en talið var í síðustu spá bankans í febrúar, einkum vegna lakari upphafsstöðu.
Talið er að áhrif viðskiptastríðsins á verðbólgu verði lítil og spáð er að hún verði komin í markmið í byrjun árs 2027 sem er heldur seinna en áður var talið.
Peningastefnunefndin segir því í yfirlýsingu sinni að þótt verðbólga hafi hjaðnað og verðbólguvæntingar lækkað síðustu misseri sé verðbólguþrýstingur enn til staðar.

„Þær aðstæður hafa því ekki skapast að hægt sé að slaka á núverandi raunvaxtaaðhaldi peningastefnunnar. Ljóst er að frekari skref til lækkunar vaxta eru háð því að verðbólga færist nær 2,5 prósenta markmiði bankans,“ útskýrir nefndin í fremur hörðum tóni sem má túlka sem skilaboð um að ólíklegt sé að vextirnir lækki eitthvað af ráði á næstunni nema verðbólgan gangi hraðar niður.
Þá segir hún að lokum, rétt eins og áður, að mótun peningastefnunnar næstu misseri mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.
Þær aðstæður hafa því ekki skapast að hægt sé að slaka á núverandi raunvaxtaaðhaldi peningastefnunnar. Ljóst er að frekari skref til lækkunar vaxta eru háð því að verðbólga færist nær 2,5 prósenta markmiði bankans.
Í könnun Innherja sem birtist á mánudaginn síðastliðinn nefndu þeir þátttakendur sem spáðu 25 punkta lækkun að það yrði meiriháttar stílbrot að víkja af núverandi leið og horfa til síðustu verðbólgumælingar. Einn hagfræðingur sem vænti lækkunar vaxta benti á að maífundur peningastefnunefndar sé ávallt forvitnilegur, en hún þarf þá að ákvarða vaxtastigið til óvenju langs tíma vegna fundarhlés yfir sumartímann – en næsti reglulegi fundur nefndarinnar er ekki fyrr en seinni partinn í ágúst, eða eftir nærri þrjá mánuði.
„Í fyrra ríkti mikil eftirvænting fyrir maífundinum, því markaðurinn var orðinn langeygur eftir upphafi vaxtalækkunarferlisins. Þá ákvað nefndin að halda vöxtum óbreyttum í áhættustýringarskyni – nefndin sagði meiri áhættu að lækka vexti of hratt en of hægt. Núna held ég að þetta hafi snúist við. Meirihluti nefndarinnar gæti nú talið meiri áhættu fylgja því að lækka vexti of hægt en of hratt, jafnvel þótt það feli í sér einhverja örlitla slökun á aðhaldi,“ útskýrði hann.