Innlent

Ráðu­neytis­stjóri bað lög­reglu­stjóra að „veita fram­vegis réttar upp­lýsingar“ í kjöl­far við­tals

Lovísa Arnardóttir skrifar
Úlfar Lúðvíksson var lögreglustjóri á Suðurnesjum frá 2020 þar til í síðustu viku. Skipað er í embættið á fimm ára fresti. 
Úlfar Lúðvíksson var lögreglustjóri á Suðurnesjum frá 2020 þar til í síðustu viku. Skipað er í embættið á fimm ára fresti.  Vísir/Einar

Haukur Guðmundsson, ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytisins, sendi Úlfari Lúðvíkssyni , þáverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum, bréf í kjölfar viðtals sem hann fór í janúar í fyrra um farþegaeftirlit á Keflavíkurflugvelli. Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag og vísað til bréfsins sem miðillinn hefur undir höndum.

Úlfar gagnrýndi í viðtalinu að ekki fengjust farþegaupplýsingar frá öllum flugfélögum sem lentu á vellinum og nafngreindi nokkur. 

Í bréfi Hauks sagði að ráðuneytið telji „afar mikilvægt að lögreglustjórinn á Suðurnesjum gæti þess framvegis að veittar verði réttar og nákvæmar upplýsingar á opinberum vettvangi og að þess verði sérstaklega gætt að gefa ekki upp opinberlega viðkvæmar upplýsingar sem kunna að hafa áhrif á löggæsluhagsmuni.“

Haukur Guðmundsson ráðuneytisstjóri. MYND/Víkurfréttir

Í frétt Morgunblaðsins segir að í bréfi ráðuneytisstjórans komi einnig fram að stjórnvöld eigi í viðræðum við ákveðin flugfélög um um að skila farþegalistum sem og við Evrópusambandið um tvíhliða samnings varðandi miðlun PNR-upplýsinga, sem eru farþegalistarnir og að markmiðið sé að skrifa undir samninga árið 2024. Bent er á það í frétt Morgunblaðsins að ekki sé enn búið að skrifa undir slíka samninga og að þau flugfélög sem ekki skili farþegalistum hafi verið töluvert fleiri í síðasta mánuði en ráðuneytisstjórinn haldi fram í bréfi sínu.

Úlfar Lúðvíksson hætti sem lögreglustjóri í síðustu viku eftir að hafa verið kallaður á fund ráðherra og tilkynnt að það ætti að auglýsa stöðuna hans. Honum var boðið að sækja um stöðu lögreglustjórans á Austurlandi án þess að hún yrði auglýst í staðinn. Hann hafnaði því og sagði upp. Gerður var starfslokasamningur við Úlfar.


Tengdar fréttir

Úlfar heldur fullum launum í heilt ár

Úlfar Lúðvíksson, fyrrverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, heldur fullum launum út skipunartíma sinn og í sex mánuði til viðbótar. Hann verður því á launum til og með 15. maí á næsta ári. 

Allar landamærastöðvar efldar og þeim mögulega fækkað

Íslensk stjórnvöld hafa markað nýja stefnu í landamæramálum sem ætlað er að efla landamæraeftirlit, auka viðbrögð við skipulagðri brotastarfsemi og tryggja mannúðlega móttöku og brottflutning hælisleitenda.

Far­þega­listarnir duga skammt

Kallað hefur verið eftir því að öll flugfélög sem fljúgi til Íslands afhendi hérlendum yfirvöldum farþegalista í þágu bættrar löggæzlu á Keflavíkurflugvelli en nokkuð hefur vantað upp á afhendingu þeirra. Hins vegar má ljóst vera að takmarkað gagn sé í reynd að slíkum farþegalistum þegar flogið er til landsins frá öðrum aðildarríkjum Schengen-svæðisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×