Fótbolti

Valencia hótar lög­sókn vegna Net­flix-myndar um Vinícius Júni­or

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Vinícius Júnior er ekki vinsæll í Valencia.
Vinícius Júnior er ekki vinsæll í Valencia. Alvaro Medranda/Getty Images

Spænska knattspyrnufélagið Valencia hefur hótað að lögsækja streymisveituna Netflix vegna heimildarmyndar veitunnar um Vinícius Júnior, leikmann Real Madríd og Brasilíu.

Valencia heimtar leiðréttingu frá framleiðendum myndarinnar vegna þeirrar myndar sem dregin er upp af kynþáttaníði sem Vini Jr. varð fyrir á Mestalla, heimavelli Valencia. Segir félagið að sú mynd sem er dregin upp í heimildarmyndinni eigi sér enga stoð í raunveruleikanum.

Myndin er gerð af brasilíska framleiðslufyrirtækinu Conspiraçao og einbeitir sér að undanförnum tímabilum hjá Brasilíumanninum. Eitt af stóru augnablikum myndarinnar snýr að atviki sem átti sér stað 21. maí 2023 þegar Vini Jr. stóð upp í hárinu á stuðningsfólki Valencia sem beitti hann kynþáttaníði.

Ári síðar voru þrír stuðningsmenn Valencia dæmdir í fangelsi vegna málsins. Einnig voru þeir dæmdir í lífstíðarbann á Mestalla.

Valencia mótmælir þeirri staðhæfingu að fleiri aðilar hafi tekið þátt í því að beita Vini Jr. kynþáttaníði. Í myndinni er birt myndband sem tekið er upp á síma. Þar er því haldið fram að orðið sem fjöldi fólks tekur undir með sé „mono“ (í. api). Valencia heldur því fram að orðið sem hafi verið sungið hátt en ekki það skýrt sé orðið „tonto“ (í . heimskur).

Valencia heimtar að myndin verði leiðrétt og hótar að lögsækja Netflix og Conspiraçao verði það ekki raunin. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×