Innlent

Yfir­maður her­afla NATO á Ís­landi

Samúel Karl Ólason skrifar
Christopher G. Cavoli, yfirhershöfðingi Atlantshafsbandalagsins, og Erin Sawyer, staðgengill sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, ásamt samráðshópi þingmanna um mótun stefnu Íslands í öryggis- og varnarmálum.
Christopher G. Cavoli, yfirhershöfðingi Atlantshafsbandalagsins, og Erin Sawyer, staðgengill sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, ásamt samráðshópi þingmanna um mótun stefnu Íslands í öryggis- og varnarmálum. Stjórnarráðið

Christopher Cavoli, yfirmaður herafla Bandaríkjanna í Evrópu og yfirmaður herafla Atlantshafsbandalagsins (SACEUR), heimsótti Ísland í vikunni. Hér fundaði hann meðal annars með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, utanríkisráðherra.

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að Þorgerður Katrín hafi gert Cavoli grein fyrir aukinni áherslu íslenskra stjórnvalda á öryggis- og varnarmál og yfirstandandi stefnumótavinnu. Þau eru einnig sögð hafa rætt horfur í öryggismálum og varnarviðbúnaði NATO.

Cavoli fundaði einnig með samráðshópi þingmanna sem vinna að mótun stefnu í öryggis- og varnarmálum á Íslandi. Þá hitti hann skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og kynnti sér aðstæður á öryggissvæðinu í Keflavík.

„Það var afar kærkomið að fá Cavoli hershöfðingja til Íslands á þessum tímapunkti, einmitt þegar vinna við að móta stefnu Íslands í varnarmálum stendur yfir,“ er haft eftir Þorgerði Katrínu í tilkynningunni. „Hann hefur yfirgripsmikla þekkingu á aðstæðum á Norður-Atlantshafi og nýtist okkur vel.“

Fregnir bárust af því í mars að innan veggja Hvíta hússins væri til skoðunar að gera umfangsmiklar breytingar á yfirstjórn herafla Bandaríkjanna og til greina kæmi að Bandaríkin létu stöðu SACEUR af hendi.

Bandarískur herforingi hefur ætíð stýrt herafla NATO.

Síðan þá hafa ráðamenn í Bandaríkjunum ekki viljað útiloka þetta en Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og hans ráðgjafar hafa verið harðorðir í garð bandalagsríkja Bandaríkjanna í Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×