Enski boltinn

Hæst­á­nægður með að Dýr­lingarnir séu ekki lé­legasta lið sögunnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Aaron Ramsdale hefur nú fallið þrisvar á ferli sínum. Hann er aðeins 26 ára.
Aaron Ramsdale hefur nú fallið þrisvar á ferli sínum. Hann er aðeins 26 ára. EPA-EFE/DANIEL HAMBURY

Aaron Ramsdale, markvörður Southampton, var hæstánægður með stigið sem liðið sótti gegn Manchester City þegar liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni á laugardag. Með stiginu er ljóst að Dýrlingarnir verða ekki lélegasta lið í sögu deildarinnar ásamt Derby County.

Umræðan í kringum Southampton undanfarnar vikur, og mánuði, hefur verið hvort um væri að ræða tölfræðilega lélegasta lið í sögu deildarinnar. Hrútarnir enduðu tímabilið 2007-08 með aðeins ellefu stig eftir að vinna einn leik, gera átta jafntefli og tapa 29 leikjum.

Lengi vel stefndi í að Ramsdale og félagar myndu bæta metið óeftirsótta og verða þar með slakasta lið í sögu ensku úrvalsdeildarinnar sem var stofnuð 1992. Óvænt stig gegn Man City þýðir hins vegar að Southampton er komið með 12 stig og það er markvörðurinn ánægður með.

„Mjög ánægður. Við erum ekki sáttir með hvernig tímabilið hefur farið en við erum sáttir með að forðast metið. Við gerum okkur fulla grein fyrir að þetta er ekki frábær stigafjöldi en í dag er stuðningsfólk okkar glatt og sólin skín,“ sagði markvörðurinn að leik loknum.

„Það vita allir að þetta hefur verið erfitt tímabil fyrir okkur. Þessi leikur var fyrir stuðningsfólkið og líka strákana sem hafa gefið allt í verkefnið. Það hafa verið margir þungir mánudagar eftir stór töp. Dagurinn í dag er léttir. Við sýndum fádæma einbeitingu og karakter. Hrós á strákana og hvernig þeir vörðust, við gerðum Man City erfitt fyrir.“

Southampton á útileik gegn Everton og heimaleik gegn Arsenal eftir áður en tímabilinu lýkur. Hver veit nema Dýrlingarnir næli í eins og eitt stig til viðbótar áður en haldið verður í sumarfrí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×