Erlent

Verka­manna­flokkurinn bar sigur úr býtum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Anthony Albanese forsætisráðherra ávarpaði stuðningsfólk sitt í höfuðstöðvum Verkamannaflokksins þegar ljóst var að flokkurinn hlyti fleiri þingsæti en íhaldsmenn.
Anthony Albanese forsætisráðherra ávarpaði stuðningsfólk sitt í höfuðstöðvum Verkamannaflokksins þegar ljóst var að flokkurinn hlyti fleiri þingsæti en íhaldsmenn. AP/Rick Rycroft

Verkamannaflokki Anthonys Albanese, sitjandi forsætisráðherra Ástralíu, hefur verið lýst sigri í þingkosningum sem fram fóru í nótt.

Peter Dutton oddviti Frjálslynda íhaldsflokksins, helsta stjórnarandstöðuflokksins, gekkst við ósigrinum og óskaði forsætisráðherranum til hamingju. Flokkur Dutton beið ekki aðeins ósigur heldur missti Dutton einnig sæti sitt á þingi til Verkamannaflokksins. Breska ríkisútvarpið greinir frá.

Anthony Albanese forsætisráðherra boðaði til þingkosninga í lok mars og stefndi í harða baráttu. Albanese hét því að standa við gefnar skuldbindingar í loftslagsmálum, orkumálum og bregðast við háum framfærslukostnaði ástralsks almennings.

Trump hafði sitt að segja

Eins og fram hefur komið hefur viðskiptasamband Ástralíu við Bandaríkin vegið þungt í aðdraganda kosninganna en rúmur mánuður er síðan Donald Trump Bandaríkjaforseti fyrirskipaði tollahækkanir á Ástrali. Áður en Trump var settur í embættið var Íhaldsflokknum spáð öruggum sigri en ljóst er nú að Verkamannaflokkurinn heldur velli.

Sjá einnig: Fylgi Í­halds­flokksins dvínar vegna fram­göngu Trump

Enn hefur aðeins hluti atkvæða verið talin og því liggur ekki ljóst fyrir hvort Verkamannaflokkurinn haldi meirihluta sínum. Hann verður þó eftir sem áður stærsti flokkurinn á þingi þeirra Ástrala og því heldur Anthony Albanese forsætisráðherrastólnum.

Ástralir hafi kosið bjartsýni

Albanese, eða Albo eins og hann er gjarnan kallaður, ávarpaði stuðningsfólk sitt í höfuðstöðvum Verkamannaflokksins. Hann sagði Ástrali hafa kosið bjartsýni.

„Í dag hefur ástralska þjóðin kosið áströlsk gildi. Sanngirni, metnað og tækifæri fyrir alla. Hún hefur kosið styrkinn til að sýna hugrekki í mótlæti og nauðstöddum örlæti. Og Ástralir hafa kosið framtíð sem stendur vörð um þessi gildi, framtíð sem byggir á öllu því sem sameinar okkur sem Ástrala og öllu því sem gerir þjóð okkar sérstaka í heiminum,“ sagði Albanese stuðningsfólki sínu þegar ljóst varð í hvað stefndi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×