Erlent

Flokka Val­kost fyrir Þýska­land sem öfgasamtök

Kjartan Kjartansson skrifar
Alice Weidel, leiðtogi öfgasamtakanna Valkosts fyrir Þýskaland.
Alice Weidel, leiðtogi öfgasamtakanna Valkosts fyrir Þýskaland. Vísir/EPA

Þýska leyniþjónustan hefur skilgreint Valkost fyrir Þýskaland (AfD), einn stærsta stjórnmálaflokk landsins, sem öfgasamtök sem ógna lýðræðinu. Matið byggir á því að flokkurinn ali á ótta við innflytjendur frá múslimalöndum.

Flokkunin gerir leyniþjónustunni kleift að fylgjast með starfsemi AfD með leynilegum aðferðum, þar á meðal með uppljóstrurum og með því að hlera fjarskipti. AfD var flokkaður sem möguleg öfgasamtök árið 2021. Ákveðnar deildir innan hans, þar á meðal ungliðahreyfingin, hafa þegar verið skilgreindar sem öfgasamtök, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Í rökstuðningi sínum sagði leyniþjónustan að kynþáttahyggja innan hægrijaðarflokksins AfD samræmdist ekki lýðræðislegum leikreglum samfélagsins. 

„Hann stefnir að því að útiloka ákveðna þjóðfélagshópa frá jafnri þátttöku í samfélaginu, að láta þá sæta meðferð sem brýtur gegn stjórnarskránni og þannig skipa þeim skör neðar að lögum,“ segir leyniþjónustan.

Flokkurinn líti ekki á þýska borgara sem eiga uppruna sinn að rekja til múslimalanda sem fullgilda Þjóðverja. Þetta leiði til þess að einstaklingar og hópar sæti ærumeiðingum og rógburði sem ýti undir órökstuddan ótta og andúð á þeim.

AfD hlaut næstmest fylgi í þingkosningum í Þýskalandi í febrúar. Aðrir flokkar neita þó að vinna með honum á þingi. Flokkurinn hefur mælst stærstur á landsvísu í nokkrum skoðanakönnunum að undanförnu.

Alice Weidel, leiðtogi AfD, talaði meðal annars um fjöldabrottvísanir á fólki af erlendum uppruna í aðdraganda þingkosninganna í vetur. Flokkurinn er einnig, eins og fleiri hægrisinnaðir þjóðernispopúlistaflokkar, á móti Evrópusambandinu og loftslagsaðgerðum og er hallur undir stjórnvöld í Kreml.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×