Erlent

Munaði sex at­kvæðum

Atli Ísleifsson skrifar
Nigel Farage fagnaði í gærkvöldi eftir að niðurstöður aukakosninganna Runcorn og Helsby lágu fyrir.
Nigel Farage fagnaði í gærkvöldi eftir að niðurstöður aukakosninganna Runcorn og Helsby lágu fyrir. AP

Umbótaflokkurinn (e. Reform) á Bretlandi, hægripopúlistaflokkurinn sem leiddur er af Nigel Farage, vann sigur í aukakosningum í kjördæmi í norðvesturhluta Englands í gær. Flokkurinn hlaut sex atkvæðum fleiri en Verkamannaflokkurinn í kjördæminu Runcorn and Helsby og náði þar með að hirða þingsæti af Verkamannaflokknum.

Sarah Pochin, frambjóðandi Reform, hafði þar betur gegn Karen Shore, frambjóðanda Verkamannaflokknum, en boðað var til aukakosninga eftir að þingmaður kjördæmisins, Mike Amesbury úr Verkamannaflokknum, sagði af sér þingmennsku í mars.

Amesbury var dæmdur í tíu vikna skilorðsbundið fangelsi eftir að hafa ráðist á kjósanda í Cheshire í október síðastliðinn.

Einnig fóru fram kosningar til nokkurra sveitarstjórna í Englandi í gær, en Verkamannaflokkurinn hefur enn sem komið er tryggt sér sigur í þremur þeirra, en Reform í einni.

Stuðningur við flokk Farage hefur aukist nokkuð eftir þingkosningarnar í Bretlandi á síðasta ári. Þó að Reform hafi hlotið 14 prósent atkvæða í þingkosningunum síðasta sumar þá náði flokkurinn einungis fjórum mönnum á þing, en eftir sigur flokksins í gær telja þingmenn flokksins nú fimm.


Tengdar fréttir

Þing­manni vikið úr Verka­manna­flokknum eftir líkams­á­rás

Mike Amesbury, þingmanni Verkamannaflokksins í Bretlandi, hefur verið vikið úr flokknum eftir að myndskeið af honum að berja mann með þeim afleiðingum að hann féll í götuna hafa farið í dreifingu á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×