Erlent

Sprenging í Íran varð 25 að bana

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Gríðarlega mikinn reyk lagði frá vöruhúsinu. 
Gríðarlega mikinn reyk lagði frá vöruhúsinu.  AP

Minnst 25 eru látnir og allt að 800 særðir eftir sprengingu á höfn í borginni Bandar Abbas í suðurhluta Íran í gær. 

Mikill eldur kviknaði í kjölfar sprengingarinnar, sem varð á höfninni Shahid Rajaee, stærstu verslunarhöfn landsins. Eldurinn dreifði sér milli gáma og er slökkvilið enn að ráða niðurlögum eldsins. Gluggar í allt að sjö kílómetra fjarlægð frá höfninnni brotnuðu í sprengingunni. 

Tildrög sprengingarinnar liggja enn ekki fyrir en Reuters hefur eftir fulltrúa almannavarna í Íran að líklega hafi eldfim efni komist í snertingu hvort við annað og valdið sprengingunni. Sá kennir lélegum skilyrðum til geymslu eiturefna á höfninni um. Yfirmaður almannavarna hafi nýlega gert úttekt á höfninni og varað við mögulegri hættu. 

Íranir eiga sem stendur í samningaviðræðum við Bandaríkjamenn um þróun kjarnorkuvopna í landinu í Óman. Vakin er athygli á þessu í frétt Reuters en ekkert bendir til þess að sprengingin tengist viðræðunum á nokkurn hátt. 

Íbúar í borginni segjast hafa fundið fyrir áhrifum sprengingarinnar allt að fimmtíu kílómetrum frá höfninni. Skólum og öðrum stofnunum á svæðinu hefur verið lokað út daginn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×