Fótbolti

Há­kon nær Meistara­deildinni en Mikael á­fram í fallsæti

Sindri Sverrisson skrifar
Hákon Arnar Haraldsson gæti átt eftir að spila aftur í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð en baráttan er hörð.
Hákon Arnar Haraldsson gæti átt eftir að spila aftur í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð en baráttan er hörð. Getty/Sylvain Dionisio

Hákon Arnar Haraldsson var í liði Lille sem vann 3-0 sigur gegn Auxerre í frönsku 1. deildinni í fótbolta í dag og komst þar með skrefi nær því að spila aftur í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Félagi hans úr landsliðinu, Mikael Egill Ellertsson, varð hins vegar að sætta sig við svekkjandi jafntefli og er áfram í fallsæti á Ítalíu.

Kanadíski landsliðsmaðurinn Jonathan David, sem hrósað hefur samstarfinu við Hákon, skoraði tvö af mörkum Lille. Hann hefur þar með skorað 16 mörk í frönsku deildinni í vetur og er þriðji markahæstur á eftir Ousmane Dembélé og Mason Greenwood.

Lille er núna í 4. sæti deildarinnar og það gæti dugað til að komast í Meistaradeild Evrópu. Liðið er með 53 stig, stigi á eftir Monaco, þegar fjórar umferðir eru eftir. Lyon og Strasobourg eru hins vegar með 51 stig og á Lyon leik til góða við Saint-Etienne í kvöld.

Mikael Egill Ellertsson var í liði Venezia sem gerði 2-2 jafntefli á útivelli gegn Empoli í botnbaráttuni í ítölsku A-deildinni. Sigur hefði komið Venezia úr fallsæti og þannig var útlitið þegar Gianluca Busio skoraði á 85. mínútu en aðeins tveimur mínútum síðar jöfnuðu heimamenn metin. Liðin eru því með 25 stig hvort, í 18. og 19. sæti, en Monza er langneðst með 15 stig. 

Fyrir ofan þessi þrjú fallsæti er Lecce, lið Þóris Jóhanns Helgasonar, með 26 stig og svo Parma með 28 stig og leik til góða við Juventus á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×