Erlent

Páfinn for­dæmdi gyðinga­hatur og á­standið á Gasa

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Frans páfi óskaði viðstöddum á Péturstorgi gleðilegra páska.
Frans páfi óskaði viðstöddum á Péturstorgi gleðilegra páska. AP/Gregorio Borgia

Frans páfi kom fram á svalir Péturskirkju í morgun og heilsaði upp á mannfjöldann. Hann óskaði viðstöddum gleðilegra páska og uppskar mikinn fögnuð.

Hann hefur verið mjög heilsuveill undanfarið en hann hefur glímt við erfiða lungnabólgu sem lagðist hart á hann. Hann gat ekki farið með hina hefðbundnu blessun Urbi et Orbi, til borgarinnar og heimsins, en Diego Ravelli erkibiskup las ávarpið í hans stað.

„Kærleikurinn hefur sigrað hatrið, ljósið myrkrið og sannleikurinn lygina. Fyrirgefningin hefur sigrað hefndargirnina. Illskan er ekki úr sögunni, hún verður til til endaloka, en hún hefur ekki lengur yfirhöndina, hún hefur ekki lengur vald yfir þeim sem þiggja náð þessa dags,“ segir páfinn.

Hann bað fyrir friði í Úkraínu og Gasa, ásamt Kongó og Mjanmar. Hann fordæmdi bæði gygingahatur og hræðilega stöðu fólks á Gasaströndinni.

„Hugur minn er hjá fólkinu á Gasa, sérstaklega kristna samfélaginu þar, þar sem hræðileg átök valda dauða og eyðileggingu og skapa hræðilegar aðstæður fyrir fólk,“ segir hann.

„Megi upprisinn Kristur veita Úkraínu stríðshrjáðri páskagjöf friðar og hvetja alla hlutaðeigendur til að vinna að réttlátum og varanlegum friði,“ segir páfi.

Páfinn mælti jafnframt fyrir frelsi til tjáningar og trúar, án þess yrði aldrei friður. Hann hvatti til þess að páskarnir yrðu nýttir til að endurvekja traust til þeirra sem eru manni ólíkir, koma frá fjarlægum löndum með frábrugðna siði og hugmyndir. Öll séum við guðs börn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×