Árásin átti sér stað að kvöldi pálmasunnudags. Cody Balmer, 38 ára karlmaður, klifraði þá yfir öryggisgirðingu við ríkisstjórasetrið í ríkishöfuðborginni Harrisburg, braut rúðu með hamri og kastaði eldsprengju inn í píanóstofu. Hann braust síðan inn og kveikti í stofunni áður en hann tók til fótanna. Ríkisstjórinn og fjölskylda hans svaf á efri hæð setursins á meðan.
Balmer sagði lögreglu að hann „hataði“ Josh Shapiro, ríkisstjóra, og að hann hefði barið hann með hamri ef hann hefði náð til hans. Reuters-fréttastofan segir að Balmer hafi meðal annars gagnrýnt Joe Biden, fyrrverandi forseta og demókrata, á samfélagmiðlum. Shapiro er einnig demókrati og hefur verið nefndur sem mögulegt forsetaefni flokksins fyrir kosningarnar árið 2028.
Shapiro er gyðingur og hafði fyrr um kvöldið fagnað fyrsta degi páskahátíðarinnar með fjölskyldu og vinum í stofunni sem Balmer kveikti í. Hann vísaði á lögregluyfirvöld þegar fréttamenn spurðu hann hvort að gyðingahatur hefði mögulega verið tilefni árásarinnar.

Atlagan að ríkisstjóranum er aðeins nýjasta dæmið um pólitísk ofbeldi vestanhafs á síðustu misserum. Karlmaður reyndi að skjóta Donald Trump til bana á kosningafundi í Butler í Pennsylvaníu í júlí í fyrra.
Árásin nú ber ýmis líkindi við það þegar maður braust inn á heimili Nancy Pelosi, þáverandi forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings og demókrata, og barði eiginmann hennar með hamri í San Francisco í október 2022.
Repúblikanar brugðust við morðtilræðinu við eiginmann Pelosi með háði og stoðlausum aðdróttunum um að árásarmaðurinn hefði verið samkynhneigður elskhugi hans. Viðbrögðin nú hafa verið nokkru virðuglegri. Mike Johnson, forseti fulltrúadeildar þingsins, sagði árásina óafsakanlega og að sækja þyrfti árásarmanninn til ýtrustu saka. Shapiro segir að Kash Patel, forstjóri alríkislögreglunnar FBI, hafi lofað því að alríkisstjórnin myndi gera allt sem í hennar valdi stæði til þess að rannsaka árásina.