Enski boltinn

Onana ekki með gegn Newcastle

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
André Onana hefur verið mikið í umræðunni undanfarna daga.
André Onana hefur verið mikið í umræðunni undanfarna daga. getty/Joe Prior

André Onana mun ekki verja mark Manchester United gegn Newcastle United í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Onana gerði sig sekan um slæm mistök í báðum mörkum Lyon í leiknum gegn United í Evrópudeildinni á fimmtudaginn.

Fyrir leikinn fór Onana mikinn í viðtölum og sagði að United væri með mun sterkara lið en Lyon. Nemanja Matic, fyrrverandi leikmaður United og núverandi leikmaður Lyon, var ekki ánægður með þessi ummæli og sagði að Onana væri einn versti markvörður í sögu United. Honum væri því hollast að hafa sig hægan.

Ruben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur samkvæmt enskum fjölmiðlum ákveðið að nota Onana ekki í leiknum gegn Newcastle í dag.

Altay Bayındır mun standa milli stanganna í leiknum á St. James' Park í dag og leika þar með sinn fyrsta deildarleik fyrir United. Bayındır kom til félagsins frá Fenerbahce og hefur leikið sjö leiki fyrir það.

Onana hefur leikið alla deildarleiki United síðan félagið keypti hann frá Inter sumarið 2023 en breyting verður á því í dag.

United er í 13. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 37 stig eftir 31 leik. Newcastle er í 7. sætinu með 53 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×