Postecoglou segir að þetta hafi verið vandamál allt þetta tímabil en hann ræddi lekann á blaðamannafundi fyri leik á móti Wolverhampton Wanderers í ensku úrvalsdeildinni sem fram fer á sunnudaginn.
„Það er enginn vafi í mínum augum að það er leki í félaginu. Einhver er að gefa upplýsingar um okkar lið og þetta hefur verið í gangi allt þetta tímabil,“ sagði Ange Postecoglou en breska ríkisútvarpið segir frá.
Ange feels he's one step closer to finding the leak that has dogged the club all season 👀 pic.twitter.com/lYakNrlytQ
— Football on TNT Sports (@footballontnt) April 11, 2025
„Ég veit ekki af hverju. Þetta hjálpar okkur ekki. Við erum að reyna að loka hringnum og komast að því hver þetta sé. Ég hef einhverja hugmynd um það hver gæti verið sökudólgurinn. Við munum síðan taka á þessu,“ sagði Postecoglou.
„Þetta gerir allt annað en að hjálpa okkur á leikdögum. Stundum er þetta hálfur sannleikurinn en stundum meira en það. Við viljum samt trúa því að fólkið í okkar félagi sé að vinna með okkur en ekki á móti,“ sagði Postecoglou.
Þetta hefur verið erfitt tímabil hjá Tottenham. Liðið er enn með í Evrópudeildinni í deildinni hefur liðið hrunið niður töfluna í ensku úrvalsdeildinni.
Liðið gerði jafntefli í fyrri leiknum á móti Eintracht Frankfurt í gær og spilar síðan deildarleik á sunnudaginn. Seinni leikurinn við Frankfurt er síðan á næsta fimmtudag.
„Fimmtudagsleikurinn tók sinn toll og Úlfarnir eru líka krefjandi andstæðingur. Þetta mun snúast um að passa upp á mínúturnar hjá einhverjum leikmönnum en einnig að fá mínútur fyrir aðra,“ sagði Postecoglou.
„Við þurfum að fá góðan leik og bjóða upp á góða frammistöðu á sunnudaginn. Ferskar fætur munu hjálpa en við erum einnig að horfa til næsta fimmtudags. Þetta er ekki um það að hvíla menn heldur snýst þetta um að menn mæti tilbúnir,“ sagði Postecoglou.
Tottenham er í fjórtánda sæti í ensku úrvalsdeildinni með 37 stig. Úlfarnir eru í sautjánda sæti tólf stigum frá fallsæti.