Í öðrum þætti A&B, þáttaraðar um tvíburana Arnar og Bjarka Gunnlaugssyni, rifjar Arnar meðal annars upp árin á Englandi. Eftir að hafa spilað vel með Bolton Wanderers gekk Arnar í raðir Leicester sem var þá á mikilli uppleið.
„Það tók mig ekkert langan tíma á að átta mig á að ég hélt ég væri að fara í mjög fagmannlegt lið á toppstað í ensku úrvalsdeildinni yfir í það að fara í klúbb þar sem kúltúrinn var svolítið langt frá þeim veruleika. Þetta var pöbbkúltúr. Mönnum fannst gaman að fá sér í tána,“ sagði Arnar.
Í þættinum var meðal annars rætt við Matt Elliott sem var fyrirliði Leicester á þessum tíma.
„Við vorum nokkuð hrjúfir og hráir miðað við ensku úrvalsdeildina. Sumir kölluðu okkur besta pöbbalið Bretlands. Það er kannski svolítið hart en okkur fannst gaman að skemmta okkur,“ sagði Elliott.
„Ef það hefði verið drykkjumeistaratitilinn hefðu þeir unnið hann. Það er víst,“ sagði Kenny Moyes, umboðsmaður Arnars, hlæjandi.
Innslagið úr A&B má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.
Þættirnir A&B verða sýndir á sunnudagskvöldum á Stöð 2 og Stöð 2 Sport.