Hvalveiðivertíðin 2023 átti að hefjast þann 21. júní en þáverandi matvælaráðherra seinkaði þeim til 1. september með reglugerð vegna álits fagráðs um velferð dýra þess efnis að veiðiaðferðirnar við veiðar á stórhvelum samræmdust ekki lögum um velferð dýra.
Samkvæmt eftirlitsskýrslu MAST voru 14 kvendýr og 9 karldýr drepin á umræddri vertíð. Ekki reyndist unnt að skrá kyn á einu dýrinu því það tapaðist og sökk til botns þegar lína slitnaði. Ein kýr var þá skráð með fóstri.
Samantekt á fjölda skota á hvert dýr leiddi í ljós að af 24 dýrum voru 5 tvískotin. Á Hval 8 voru þrjú dýr skotin tveimur skotum en á Hval 9 voru þau tvö. Í skýrslunni er þá tilgreindur dauðatími hvers hvals. Sautján dýr drápust samstundis, tvö dýr á einni til fimm mínútum, þrjú á sex til tíu mínútum og eitt á ellefu til fimmtán mínútum. Eitt þeirra háði þá þrjátíu og fimm mínútna dauðastríð.
Ísland sé hluti af stærri heild og beri ábyrgð
Katrín Oddsdóttir er lögmaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.
„Mér finnst þetta óhugnanlegt og hræðilegt að sjá að dýrið hefur kvalist svona lengi. Fyrst og fremst finnst mér þetta sýna, svo sem það sem við vitum að það er ekki hægt að tryggja það að svona stórir hvalir séu veiddir með mannúðlegum hætti.“
Katrín segist nema mikla skautun í samfélaginu í afstöðu til hvalveiða.
„Sumir telja þetta vera algjörlega frábært og vera partur af okkar fullveldi og annað en ég held við þurfum að fara að átta okkur á því að við erum ekki lítil eining, við erum partur af stærri heild.“
Og sem slík beri Ísland ábyrgð.
„Við höfum skuldbundið okkur að hjálpa til við það markmið sem er að bjarga hafinu og þar spila hvalir einfaldlega lykilhlutverk. Ég veit til þess að það er verið að undirbúa lögfræðilegar aðgerðir gegn Íslandi vegna þess að við þrjóskumst við og höldum þessu óarðbæru veiðum áfram þrátt fyrir að vita betur og ég held að þegar við fáum svona sannanir í fangið eins og þessi myndbönd, þá verðum við að hafa hugrekki til að krefja okkar stjórnvöld um að stoppa þetta.“