Lífið

Fjöl­skylda Bryn­dísar Klöru þakk­lát

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Birgir Karl Óskarsson faðir Bryndísar Klöru er þakklátur.
Birgir Karl Óskarsson faðir Bryndísar Klöru er þakklátur.

Góðgerðarpizza Domino's í ár verður tileinkuð Bryndísi Klöru og mun allur ágóði renna í minningarsjóð í hennar nafni. Faðir hennar segir stuðninginn ómetanlegan fyrir fjölskyldu hennar. Sala pizzunnar hefst á morgun.

Allt söluandvirði góðgerðarpizzu Domino's á Íslandi mun í ár renna í Minningarsjóð Bryndísar Klöru sem lést sautján ára gömul á menningarnótt. Sjóðnum er ætlað er að vernda börn gegn ofbeldi og efla samfélag þar sem samkennd og samvinna er í forgrunni. Faðir Bryndísar Birgir Karl Óskarsson segir stuðninginn skipta fjölskyldu hennar miklu.

„Þetta er algjörlega frábært framtak hjá Domino's. Bryndís var stoltur starfsmaður Domino's. Við erum akkúrat stödd á starfstöð hennar þar sem hún vann í Flatahrauni í Hafnarfirði. Domino's og allt samfélagið hefur tekið undir til að heiðra minningu Bryndísar Klöru, styrkja sjóðinn til að veita honum vængi, það er alveg ómetanlegt.“

Hrefna Sætran hannaði pítsuna sem verður í sölu frá og með morgundeginum til fimmtudags. Einnig eru seldar svuntur í uppáhalds lit Bryndísar í Kringlunni á meðan birgðir endast. Formaður Minningarsjóðs Bryndísar Klöru Guðrún Inga Sívertsen segir ýmis verkefni á borðinu.

„Markmið okkar er að efla kærleikann í samfélaginu og með því að kaupa pítsuna þá ert þú að gera það, þú ert að gerast riddari kærleikans með því að kaupa þína pizzu, þannig ég hvet landsmenn til að panta sér pizzuna á næstu dögum, áður en hún selst upp.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.