„Við erum í skýjunum með árangurinn. Þetta þýðir að við höfum tryggt það að nýtt Kvennaathvarf mun rísa og það á réttum tíma”, segir Elísabet Sveinsdóttir ein aðstandenda Á allra vörum.
Í tilkynningu frá þeim Elísabetu, Gróu og Guðnýju, sem standa að Á allra vörum, kemur fram að þær séu þakklátar öllum sem tóku þátt í átakinu og lögðu hönd á plóg með einum eða öðrum hætti.
„Við hefðum ekki verið á allra vörum án stuðnings bakhjarlanna okkar, sjálfboðaliðanna, vina og vandamanna. Það er með ólíkindum að upplifa kraftinn og gleðina sem ríkti í allri herferðinni”, segir Gróa Ásgeirsdóttir.
Á milli 200 til 300 manns komu að átakinu og lögðu því lið með einum eða öðrum hætti.
„Þegar allir leggjast á eitt verða töfrar til. Við eigum ekki til eitt nægilega sterk orð til að lýsa þakklæti okkar”, segir Guðný Pálsdóttir.