Enski boltinn

Ekki góður dagur fyrir Meistara­deildar­drauma Brig­hton og Bour­nemouth

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jean-Philippe Mateta fagnar hér marki sínu í sigri Crystal Palace í dag.
Jean-Philippe Mateta fagnar hér marki sínu í sigri Crystal Palace í dag. Getty/Sebastian Frej/

Brighton & Hove Albion og Bournemouth töpuðu bæði dýrmætum stigum í ensku úrvalsdeildinni í dag og fyrir vikið minnkuðu möguleikar beggja liða á að tryggja sér Meistaradeildarsæti í vor.

Meistaradeildardraumurinn var kannski fjarlægður hjá þessum spútnikliðum en bæði lið hafa gert magnaða hluti á leiktíðinni og voru fyrir leikinn á fulli í baráttunni um þau fimm sæti sem gefa enskum liðum sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

Brighton tapaði á útivelli á móti Crystal Palace en Bournemouth náði að bjarga stigi á útivelli á móti West Ham. Úlfarnir unnu á sama tíma endurkomusigur á Ipswich í sex stiga leik í fallbaráttunni.

Tíu leikmenn Crystal Palace unnu 2-1 heimasigur á Brighton.

Jean-Philippe Mateta kom Crystal Palace í 1-0 strax á þriðju mínútu en Danny Welbeck jafnaði á 31. mínútu. Daniel Munoz kom Palace aftur yfir á 55. mínútu. Markið lagði Eberechi Eze upp alveg eins og markið hjá Mateta.

Crystal Palace var manni færra frá 78. mínútu þegar Edward Nketiah fékk sitt annað gula spjald. Brighton tókst ekki að fá eitthvað út úr leiknum þrátt fyrir að vera manni fleiri.

West Ham og Bournemouth gerðu 2-2 jafntefli í London í mjög fjörugum leik.

Dagurinn byrjaði vel fyrir Bournemouth þegar Evanilson skoraði á 38. mínútu en Niclas Füllkrug jafnaði metin á 61. mínútu og Jarrod Bowen kom West Ham síðan yfir aðeins sjö mínútum síðar.

Evanilson jafnaði metin með sínu öðru marki á 79. mínútu og Bournemouth fékk færi til að tryggja sér sigur. Það tókst ekki og eitt stig á lið varð niðurstaðan.

Brighton er í áttunda sæti með 47 stig, þremur stigum frá síðasta Meistaradeidlarsætinu. Bournemouth er tveimur stigum og einu sæti neðar. Crystal Palace komst upp í ellefta sæti með sigrinum en West Ham er í fimmtánda sætinu.

Ipswich var lengi í góðum málum en tapaði 1-2 á heimavelli á móti Wolves.

Liam Delap kom Ipswich i 1-0 á móti Wolves á 16. mínútu og þannig var staðan fram á 72. mínútu þegar Pablo Sarabia jafnaði. Norðmaðurinn Jørgen Strand Larsen skoraði sigurmarkið á 84. mínútu og fór langt með að fella Ipswich.

Sigur Úlfanna, sem sitja í síðasta örugga sætinu, þýðir að þeir eru með tólf stiga forskot á Ipswich sem situr í fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×