Austurfrétt greindu fyrst frá máli svörtu þyrlunnar sem hefur verið notuð til ferða milli Egilsstaðaflugvallar og Vopnafjarðar.
Tvær einkaþotur merktar Ineos, félagi Ratcliffe, lentu fyrir austan á miðvikudag og hefur þyrlan síðan verið daglega á ferðinni, að því er fram kemur hjá Austurfrétt.
Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Six Rivers-verkefnisins, sagði við Austurfrétt að þyrlan hafi undanfarna daga verið að aðstoða hóp á vegum Ratcliffe í fjallaferð í kringum Kverkfjöll og Laugarfell. Þyrlan hafi verið notuð til að ferja vistir og vera til taks fyrir hópinn. Fólkið heldur aftur af landi brott í dag
Laxveiði, jarðarkaup og fótbolti
Ratcliffe stofnaði Six Rivers-verkefnið árið 2019 en markmið þess er að vernda villta Atlantshafslaxinn og sporna við fækkun hans. Verkefnið heldur utan um gögn um laxinn, stendur fyrir uppbyggingu í tengslum við laxveiði og skipuleggur fluguveiðiferðir.
Ratcliffe hefur verið stórtækur í jarðarkaupum fyrir Austan. Í gegnum fyrirtæki sitt Sólarsali ehf. á Ratcliffe 29 jarðir við og í kringum Vopnafjörð. Það gerir hann að fjórða stærsta landeiganda Íslands. Samkvæmt fréttaskýringu Rúv um jarðarkaup Ratcliffe frá 2019 eru jarðir í hans eign þó nokkuð fleiri, eða 39 talsins.
Hann lýsti því svo yfir 2021 að hann hygðist ekki kaupa fleiri jarðir og ætlaði að einbeita sér að verndun laxastofnsins þaðan af.
Sennilega á nýjasta eign hans, Manchester United, hug hans allan þessa dagana.