Sport

Vinur Pútíns við það að slá eitt stærsta metið í banda­rískum í­þróttum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vladimir Pútín Rússlandsforseti með vini sínum Alexander Ovechkin sem er við það að eignast eitt stærsta metið í bandarískum íþróttum.
Vladimir Pútín Rússlandsforseti með vini sínum Alexander Ovechkin sem er við það að eignast eitt stærsta metið í bandarískum íþróttum. Getty/Sasha Mordovets

Metið sem fáir bjuggust við að yrði einhvern tímann slegið er við það að falla. Við erum að tala um markametið í NHL-deildinni í íshokkí.

Metið hefur verið í eigu Kanadamannsins Wayne Gretzky sem setti skautana sína upp á hillu í lok síðustu aldar. Markametið hans Gretzky er eitt af þeim risastóru í bandarískum atvinnumannadeildunum.

Gretzky var þá búinn að skora 894 mörk í deildinni og var með yfirburðarforystu á markalistanum þegar hann hætti að spila árið 1999. Hann hafði þá slegið met goðsagnarinnar Gordie Howe um alls 93 mörk.

Það er ekki bara að vekja athygli að metið sé að falla heldur líka vegna þess hver það er sem er við að slá það.

Sá heitir Aleksandr Ovechkin og er Rússi. Ovechkin er líka vinur og stuðningsmaður Vladimirs Pútín Rússlandsforseta sem hefur kallað á mikla gagnrýni.

Ovechkin skoraði tvö mörk í nótt og jafnaði með því metið. Næsti leikur hans er síðan annað kvöld og þar gæti metið fallið. Hann fær síðan átta leiki í viðbót til að bæta það.

Ovechkin skoraði þessi mörk í 5-3 sigri Washington Capitals á Chicago Blackhawks.

„Allir Rússar verða stoltir af þessu afreki. Það er mjög sérstakt fyrir okkur að hann sé að taka metið heim,“ sagði rússneski íshokkímaðurinn Andrey Svechnikov við nhl.com.

Ovechkin er einn af sextíu Rússum sem spila í NHL deildinni. Rússar mega spila þar en þeir mega ekki taka þátt í heimsmeistaramótinu eða spila á Vetrarólympíuleikunum.

Ovechkin er 39 ára gamall og er enn að standa sig frábærlega inn á ísnum. Þegar hann jafnaði metið var gert hlé á leiknum á meðan hann skautaði um ísinn og fagnaði við frábæra undirtektir úr stúkunni.

Það var enginn að pæla þá í tengslum hans við Pútín. Hann hefur sjálfur sagt að hann sé fyrst og fremst íþróttamaður og hafi ekkert um stjórnmál að segja. Hann þurfti að svara mörgum spurningum eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu.

„Hann [Pútin] er forsetinn minn en ég tek ekki þátt í stjórnmálum. Ég er íþróttamaður og ég vona að stríðið endi sem fyrst. Þetta er erfið staða fyrir báðar þjóðir,“ sagði Ovechkin á sínum tíma.

Á sama tíma var Ovechkin með mynd af sér með Pútin á samfélagsmiðlum. Hún er þar ennþá. Þeir eru vinir.

Aleksandr Ovechkin lék sinn fyrsta leik í NHL-deildinni árið 2005. Hann hefur spilað alla tíð með liði Washington Capitals.

Gretzky lék á sínum tíma 1487 leiki í NHL-deildinni en Ovechkin er kominn í 1486 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×