Enski boltinn

Mo Salah í mynda­tökum niður við höfnina í Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah hefur ekki spilað fyrir Liverpool síðan 16. mars en Egyptinn verður í eldlínunni á Anfield í kvöld.
Mohamed Salah hefur ekki spilað fyrir Liverpool síðan 16. mars en Egyptinn verður í eldlínunni á Anfield í kvöld. Getty/Nikki Dyer

Framtíð egypska knattspyrnumannsins Mohamed Salah hjá Liverpool er enn í óvissu og stuðningsmenn Liverpool liggja því áfram á bæn að markahæsti leikmaður liðsins framlengi samning sinn við topplið ensku úrvalsdeildarinnar.

Liverpool fær nágranna sína í Everton í heimsókn á Anfield í ensku úrvalsdeildinni í kvöld og geta endurheimt tólf stiga forskot á toppnum með sigri. Arsenal vann sinn leik í gær og minnkaði forskot Liverpool niður í níu stig.

Salah er bæði markahæsti og stoðsendingahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar á tímabilinu en átti ekki góða leiki fyrir landsleikjahlé. Hann ætlar sér eflaust að bæta úr því í kvöld.

Einhverjar fréttir höfðu leikið út um að samningaviðræður Salah og Liverpool hafi gengið betur síðustu daga en ekkert formlegt hefur verið gefið út.

Þess vegna vakti það athygli hjá mörgum þegar Mo Salah sást í myndatöku niður við höfnina í Liverpool.

Var verið að mynda hann í tilefni af nýjum samningi eða var Egyptinn að taka upp kveðjumyndband?

Höfnin í Liverpool er einn sögufrægasti staður borgarinnar og því örugglega engin tilviljun að Salah væri í upptökum þar.

Þeir bjartsýni sjá eflaust fyrir sér nýjan tveggja eða þriggja ára samning en þeir allra svartsýnustu telja eflaust að hann hafi þarna verið að kveðja Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×