Leikurinn átti að fara fram 8. mars en var frestað vegna skyndilegs fráfalls læknis Barcelona-liðsins, Carles Minarro Garcia.
Leikurinn var svo settur á í gær, daginn eftir að landsleikjahléinu lauk. Hansi Flick, stjóri Barcelona, gagnrýndi þetta enda var hann án fyrirliðans og 27 marka mannsins Raphinha sem þurfti að ferðast heim frá Suður-Ameríku eftir landsleiki Brasilíu.
Martinez gaf ekki kost á sér með spænska landsliðinu vegna meiðsla en var svo með í leiknum í gær. Samkvæmt BBC eru reglur FIFA skýrar varðandi það að leikmenn megi ekki spila fyrir sitt félagslið innan við fimm dögum eftir landsleikjaglugga, hafi þeir ekki getað gefið kost á sér í landsleiki, nema með sérstöku leyfi knattspyrnusambands landsins.
Martinez lék allar 90 mínúturnar í sigri Barcelona í gær og er liðið nú með þriggja stiga forskot á Real Madrid á toppi spænsku deildarinnar en Osasuna í 14. sæti með 33 stig, sex stigum frá fallsæti.
Í yfirlýsingu frá Osasuna segir: „Club Atletico Osasuna telur að Inigo Martinez, sem var ekki með spænska landsliðinu vegna meiðsla, hafi ekki mátt spila leikinn í gær samkvæmt reglum FIFA. Þar af leiðandi hefur félagið kært til að verja rétt þess og gæta sanngirni og jafnræðis í keppninni.“