Á síðustu árum hefur mikið verið fjallað um rafmyntir eins og Bitcoin og Ethereum, sem eru stafrænar eignir sem hafa vakið áhuga fjárfesta, fyrirtækja og jafnvel þjóðríkja víða um heim. Færri hafa þó heyrt um svokallaðar stöðugleikamyntir (e. stablecoins), sem eru orðnar ómissandi hluti af nýju stafrænu hagkerfi heimsins.
En hvað eru stöðugleikamyntir og hvers vegna ætti venjulegt fólk að veita þeim athygli?
Stafrænir gjaldmiðlar
Stöðugleikamynt er rafræn útgáfa af gjaldmiðli sem helst í föstu verði. Algengustu stöðugleikamyntirnar eru tengdar við Bandaríkjadal. Til dæmis er ein USDC eða USDT mynt alltaf 1 dollara virði. Þær eru gefnar út af einkafyrirtækjum og halda gildi sínu með því að hafa raunverulegan gjaldmiðil í varasjóði á móti hverri einingu sem er í umferð.
Þetta eru ekki rafmyntir í hefðbundnum skilningi og þær eru ekki hannaðar til að hækka í verði heldur til að viðhalda stöðugleika, eins konar rafrænir dollarar. Þetta gerir þær sérstaklega nytsamlegar í viðskiptum, greiðslum og sem milliliður í stafrænum fjármálum.
Hver stöðugleikamynt er í raun eins konar stafræn eign eða forrit sem fylgir reglum um hvernig hún má vera í umferð.
Á Íslandi starfar fyrirtækið Monerium, sem hefur vakið athygli á alþjóðavísu fyrir að gefa út evrutengda stöðugleikamynt (EURe). Monerium er eitt þeirra fyrirtækja sem hafa fengið starfsleyfi sem rafeyrisfyrirtæki og sameinar stafræna nýsköpun og evrópska regluumgjörð.
Hvar lifa stöðugleikamyntir?
Stöðugleikamyntir eru byggðar ofan á svokölluðum bálkakeðjum (e. blockchains), sem eru dreifðstýrð (e. decentralized) og örugg netkerfi sem rafmyntir byggja á. Þekktustu bálkakeðjurnar sem stöðugleikamyntir nota eru Ethereum og Solana, en fleiri eru einnig í notkun.
Hver stöðugleikamynt er í raun eins konar stafræn eign eða forrit sem fylgir reglum um hvernig hún má vera í umferð. Þegar einhver sendir stöðugleikamynt til annars aðila, fer sú færsla fram á bálkakeðjunni og er opinberlega staðfest af netinu. Þessi tækni gerir viðskiptin bæði örugg, ódýr og mjög hröð, sérstaklega á nýrri bálkakeðjum sem styðja mikil afköst.
Af hverju eru þær notaðar?
Stöðugleikamyntir hafa fjölbreytta notkun. Þær eru meðal annars:
Notaðar í alþjóðlegum millifærslum, þar sem hægt er að flytja fé á örskotsstundu, allan sólarhringinn og án dýrra bankaþóknana.
Byggingareiningar nýrrar fjármálatækni (DeFi) sem gerir kleift að veita lán, bjóða vexti og framkvæma greiðslulausnir án milliliða.
Notaðar af íbúum landa sem hafa ekki aðgang að bankakerfi, þar sem íbúar geta fengið greitt í stöðugleikamyntum og ráðstafað hvert sem er eða byggt upp sparnað.
Notaðar af fólki í löndum með óstöðugan gjaldmiðil, til að vernda sparnað gegn verðbólgu. Til dæmis í Argentínu, Tyrklandi eða Venesúela.
Sem ígildi hefðbundna gjaldmiðla í viðskiptum með rafmyntir, þar sem stöðugleikamyntir eru notaðar til að kaupa og selja aðrar rafmyntir eða til að færa á milli kauphalla. Rafmyntamarkaðurinn er opin allan sólarhringinn, alla daga ársins, svo ekki er hægt að nýta hefðbundið bankakerfi nema hluta af deginum.
Tól sem rafmyntafjárfestar nota til að fara „út úr markaðnum“ tímabundið, án þess að þurfa að fara í gegnum hefðbundna banka.
Vöxturinn er hraður
Á undanförnum misserum hefur útgáfa stöðugleikamynta aukist gríðarlega. Samanlagt virði þeirra í umferð er nú vel yfir 200 milljarðar dollara, og vöxturinn hefur verið sérstaklega mikill frá því snemma árs 2024. Mörg fyrirtæki, allt frá nýsköpunarfyrirtækjum til stórra fjármálastofnana, keppast nú við að gefa út eigin stöðugleikamyntir.

Þessi aukning er skýr vísbending um að eftirspurn eftir öruggum, stafrænum gjaldmiðlum sé að vaxa, bæði í viðskiptum, fjárfestingum og daglegum greiðslum. Stöðugleikamyntir eru að verða eins konar undirliggjandi lag stafræns fjármálakerfis sem virkar allan sólarhringinn og yfir landamæri.
Aukið regluverk í Bandaríkjunum
Á sama tíma eru Bandaríkin að stíga mikilvægt skref í átt að auknum vexti stöðugleikamynta. Frumvarp sem nú er til meðferðar á Bandaríkjaþingi miðar að því að skapa skýran lagaramma utan um stöðugleikamyntir, meðal annars með skilyrðum um gagnsæi, varasjóði og leyfisskyldu.
Ef frumvarpið verður að lögum gæti það orðið mikilvægur vendipunktur. Bandarísk viðurkenning á stöðugleikamyntum myndi ekki aðeins opna á víðtækari notkun innanlands, heldur einnig styrkja stöðu Bandaríkjadals sem stafræns gjaldmiðils í alþjóðlegum viðskiptum. Slík þróun gæti jafnframt ýtt undir nýsköpun og aukna samkeppni á þessu sviði á heimsvísu. Ráðamenn í Bandaríkjunum hafa gefið út að þeir sjá fyrir sér að markaðsvirði stöðugleikamynta muni verða talið í þúsundum milljarða dollara innan nokkurra ára.
Hvað með Ísland?
Á Íslandi hafa stöðugleikamyntir ekki komist í almenna notkun, líklega meðal annars vegna þess að fjármálainnviðir hér á landi eru almennt góðir í alþjóðlegum samanburði og einfalt og ódýrt er að færa fjármagn í krónum innanlands. Hins vegar er það enn kostnaðarsamt og svifaseint að senda greiðslur milli landa, þar sem slíkar færslur þurfa að fara í gegnum hefðbundna banka og eru háðar opnunartíma þeirra og millibankakerfum.
Tímabil stöðugleikamynta er því sennilega aðeins rétt að byrja og munu þær að öllum líkindum hafa áhrif á það hvernig við hreyfum fjármagn okkar í framtíðinni.
Ef krónan væri þó gefin út sem stöðugleikamynt, gæti það í framtíðinni opnað á nýjar leiðir í stafrænum viðskiptum, hraðari greiðslum og aukinni samkeppni á fjármálamarkaði.
Niðurstaða
Stöðugleikamyntir eru ekki aðeins fyrir tækninörda eða rafmyntafjárfesta. Þær eru í raun merki um stærri breytingar í fjármálaumhverfi heimsins, breytingar sem gerast nú hratt og fá lagalegan stuðning í stærstu hagkerfum heims.
Þetta er tæknilausn sem sameinar hraða, öryggi og lágan kostnað, og býður þannig upp á hagræði fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki. Með stöðugleikamyntum er hægt að framkvæma greiðslur og millifærslur á örfáum sekúndum, allan sólarhringinn, án milliliða, dýrra gjalda eða langra biðtíma. Með þessum hætti er hægt að ná fram gríðarlegum sparnaði í kostnaði og tíma. Tímabil stöðugleikamynta er því sennilega aðeins rétt að byrja og munu þær að öllum líkindum hafa áhrif á það hvernig við hreyfum fjármagn okkar í framtíðinni.
Höfundur er framkvæmdastjóri Visku Digital Assets.