Erlent

Lýsa yfir neyðar­á­standi vegna ofbeldisöldu í höfuð­borg Perú

Kjartan Kjartansson skrifar
Dina Boluarte, forseti Perú, lýsti yfir neyðarástandi í Lima sem varir í þrjátíu daga.
Dina Boluarte, forseti Perú, lýsti yfir neyðarástandi í Lima sem varir í þrjátíu daga. AP/Guadalupe Pardo

Forseti Perú lýsti yfir neyðarástandi í höfuðborginni Perú vegna vaxandi ofbeldisöldu í gær. Herinn hefur verið ræstur út til þess að ná tökum á ástandinu og samkomu- og ferðafrelsi borgarbúa verður skert næsta mánuðinn.

Tilkynnt hefur verið um á fimmta hundrað morða til lögreglunnar frá upphafi árs. Þá hefur fjárkúgunum fjölgað mikið og árásum á opinberum stöðum sömuleiðis, að sögn AP-fréttastofunnar. Neyðarástandið sem Dina Boluarte forseti lýsti yfir gildir í þrjátíu daga. Lögreglan og herinn getur nú handtekið fólk án handtökuskipunar.

Steininn tók úr á sunnudag þegar 39 ára gamall söngvari var skotinn til bana þegar vopnaðir menn réðust á hljómsveitarrútu hans og félaga hans eftir tónleika í Lima. Daginn áður sprakk sprengja og særði að minnsta kosti ellefu manns á veitingastað í borginni.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar kröfðust atkvæðagreiðslu um vantraust á hendur Juan José Santiváñez, innanríkisráðherra, sem þeir saka um að hafa engin úrræði gegn ofbeldinu. Greiða á atkvæði um tillöguna síðar í vikunni.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem stjórnvöld lýsa yfir neyðarástandi vegna ofbeldisins. Það varði síðast í tvo mánuði frá september fram í desember. Neyðarástandi var einnig lýst yfir vegna mótmæla sem brutust út eftir að Pedro Castillo, forvera Boluarte, var vikið úr embætti og hún tók við.


Tengdar fréttir

Forseti Perú kærður fyrir mútuþægni

Ríkissaksóknari í Perú lagði fram kæru til þingsins á hendur Dinu Boluarte, forseta landsins, fyrir mútuþægni í gær. Ásakanirnar tengjast lúxusúrum og skartgripum sem Boluarte ber.

Lýsa yfir neyðarlögum vegna mótmælanna í Perú

Ný ríkisstjórn Perú lýsti í dag yfir neyðarlögum vegna ofbeldisfullra mótmæla sem brutust út eftir að Pedro Castillo forseti var vikið úr embætti í síðustu viku. Lögregla fær auknar valdheimildir með lögunum og samkomufrelsi er afnumið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×