Innherji

Sigur­laug selur alla hluti sína í ION Hot­els og fast­eignafélaginu Hengli

Hörður Ægisson skrifar
Sigurlaug hefur verið einn stærsti hluthafi hótelsfélagsins ásamt því að gegna starfi framkvæmdastjóra ION Hotels. 
Sigurlaug hefur verið einn stærsti hluthafi hótelsfélagsins ásamt því að gegna starfi framkvæmdastjóra ION Hotels. 

Sigurlaug Sverrisdóttir, sem hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra ION Hotels undanfarin tólf ár, hefur selt alla hluti sína í félögunum Hengill Fasteignir og ION Hotels. Fyrir söluna átti Sigurlaug um 23 prósenta óbeinan hlut í fasteignafélaginu á meðan hún fór með fjórðungshlut i félaginu sem heldur utan um hótelreksturinn.

Halldór Hafsteinsson fjárfestir er kaupandi alls hlutafjár Sigurlaugar í báðum félögum en Halldór, sem er fyrrverandi eiginmaður hennar, er í hópi núverandi eigenda ásamt Önnu Lísu Sigurjónsdóttur í gegnum eignarhaldsfélagið Ablos.

Ekki fást upplýsingar um kaupverðið í viðskiptunum.

Undir merkjum ION eru starfrækt fjögur hótel – ION Adventure á Nesjavöllum, ION City á Laugavegi, Von hótel á Laugavegi og Hótel Búðir auk veitingastaðarins Von Restaurant og helmingshlutar í veitingastöðunum Sumac og Óx.

Á árinu 2024 var farið í miklar framkvæmdir á ION Adventure hótelinu á Nesjavöllum og herbergjum fjölgað.

ION hótelið á Nesjavöllum var byggt árið 2013. Á síðasta ári réðst félagið í miklar framkvæmdir og var hótelið stækkað úr 45 herbergjum í 66. Þá var sömuleiðis farið í miklar endurbætur á Hótel Búðum og herbergjum fjölgað þar líka.

Samkvæmt síðasta birta ársreikningi ION Hotels þá námu tekjur félagsins um 1.110 milljónum króna á árinu 2023 og var þá lítilsháttar tap á rekstrinum. Með stækkun á ION Adventure hótelinu er hins vegar talið að rekstrarhagkvæmnin aukist og horfurnar séu því bjartar.

Bókfært virði fjárfestingareigna Hengils var ríflega fjórir milljarðar í árslok 2023 og eigið fé félagsins var um 2,3 milljarðar. Helstu eignir Hengils eru hótelið á Hengilssvæðinu ásamt Laugavegi 28.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×