Erlent

Duterte sakaður um glæpi gegn mann­kyninu og hand­tekinn í Manila

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Duterte prófar kínverskan riffil árið 2017.
Duterte prófar kínverskan riffil árið 2017. AP/Bullit Marquez

Rodrigo Duterte, fyrrverandi forseti Filippseyja, var handtekinn í Manila í gær eftir að Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn gaf út handtökuskipun á hendur honum.

Duterte hefur verið sakaður um glæpi gegn mannkyninu vegna „stríðs“ hans gegn fíkniefnum, þar sem talið er að allt að 30 þúsund manns hafi verið drepnir.

Duterte tók við forsetaembættinu árið 2016 eftir að hafa heitið því að útrýma fíkniefnum í landinu. Sagði hann meðal annars að svo mörgum líkum yrði hent í Manila-flóa að fiskarnir þar yrðu feitir og eftir að hann varð forseti sagðist hann sjálfur myndu myrða fíkniefnasala og hvatti landsmenn til að drepa fíkla.

Margir af þeim 30 þúsund sem létu lífið á meðan Duterte var forseti voru skotnir úti á götu.

Myndskeið hefur verið birt sem virðist sýna handtöku Duterte um borð í flugvél. Þar segir hann að lögregla verði hreinlega að drepa hann; hann ætli ekki að láta undan „hvítum útlendingum“. Áður hafði hann hins vegar sagt að ef hann yrði handtekinn þá myndi hann sætta sig við það.

Duterte er enn áhrifamikill á Filippseyjum en dóttir hans Sara er varaforseti landsins.

Guardian fjallar ítarlega um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×