Enski boltinn

Liverpool gæti mætt vængbrotnu liði í úr­slita­leiknum á Wembley

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexander Isak er tæpur fyrir úrslitaleikinn og Anthony Gordon verður ekki með Newcastle United á móti Liverpool á Wembley.
Alexander Isak er tæpur fyrir úrslitaleikinn og Anthony Gordon verður ekki með Newcastle United á móti Liverpool á Wembley. Getty/Stu Forster

Liverpool og Newcastle spila til úrslita í enska deildabikarnum 16. mars næstkomandi. Liverpool verður nú sigurstranglegra og sigurstranglegra með hverri slæmu fréttinni sem kemur frá herbúðum Newcastle.

Það er ekki nóg með að Liverpool sé með yfirburðastöðu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og sé með 23 stigum meira en Newcastle í deildinni þá týnist stöðugt úr liði Newcastle manna.

Nú stefnir í það að Newcastle verði án fjögurra lykilmanna í leiknum.

Anthony Gordon náði sér í klaufalegt rautt spjald í síðasta leik og verður örugglega í banni. Þá eru meiðsli varnarmannsins Lewis Hall það alvarlega að hann spilar ekki meira á tímabilinu.

Markaskorarinn mikli Alexander Isak er að glíma við nárameiðsli og þau geta verið erfið viðureignar. Það gæti því farið svo að hann verði ekki leikfær.

Fjórði leikmaðurinn er svo Sven Botman er líka að glíma við meiðsli.

Mestu skiptir náttúrulega máli að Alexander Isak spili leikinn og Newcastle gerir örugglega allt til þess að hann verði í búning.

Isak er þriðji markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar á tímabilinu með 19 mörk og 5 stoðsendingar í 24 leikjum. Hann hefur verið orðaður við Liverpool alveg eins og Anthony Gordon.

Gordon er með sex mörk og sex stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni í vetur og hefur skorað tvö mörk að auki í deildabikarnum sem hafa bæði komið í síðustu leikjum. Isak er einnig með tvö mörk í enska deildabikarnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×