Erlent

Útgönguspár benda til sögu­legra úr­slita

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Alice Weidel, kandídat AfD til kanslara, and Tino Chrupalla, formanni AfD, fögnuðu eftir að útgönguspár voru birtar.
Alice Weidel, kandídat AfD til kanslara, and Tino Chrupalla, formanni AfD, fögnuðu eftir að útgönguspár voru birtar. Getty

Samkvæmt fyrstu útgönguspám úr þingkosningum í Þýskalandi er Kristilegum Demókrötum spáð sigri með um 29 prósent atkvæða. Harðlínuhægriflokknum AfD er spáð 19,5 prósentum sem er söguleg niðurstaða í tólf ára sögu flokksins. 

Þetta kemur fram í umfjöllun Sky um útgönguspár í kosningunum. 

Á eftir efstu flokkunum tveimur koma Sósíaldemókratar með sextán prósent, Græningjar með 13,5 prósent, vinstriflokkurinn Die Linke með 8,5 prósent og mælast svo FDP og BSW með tæp fimm prósent.

Útgönguspárnar eru nokkuð í takt við síðustu skoðanakannanir. Vinstriflokkurinn Die Linke er þó með um 2,5 prósentustigum meira en í könnunum. 

Bestu úrslit í sögu AfD en ólíkleg í ríkisstjórn

Reynist útgönguspárnar réttar er þetta mikill sigur fyrir AfD þó flokkurinn muni hugsanlega enda utan ríkisstjórnar. Þetta yrði líka í fyrsta skipti frá Seinni heimsstyrjöld sem hægri flokkur endar sem næststærstur.

AfD fékk tíu prósent í síðustu kosningum og tvöfaldar því þingmannafjölda sinn. Flokkurinn sem hefur boðið fram í þrennum kosningum hefur mest fengið 12,6 prósent árið 2017.

Kosningarnar snúast um staðnaðan efnahag Þýskalands, sem sprengdi fráfarandi meirihluta, orkumál, húsnæðiskostnað og hælisleitenda- og innflytjendamál. AfD hafa talað fyrir hertari útlendingalöggjöf, gegn Evrópusambandinu, neitað tilvist hamfarahlýnunar og lýst yfir stuðningi við aukin samskipti við Rússa.

Merz með pálmann í höndunum

Líklegast þykir að Kristilegir demókratar muni mynda ríkissjórn með Sósíaldemókrötum ásamt þriðja flokki. Báðir flokkar hafa neitað að vinna með AfD. Þá þykir ansi líklegt að Friedrich Merz, leiðtogi Kristilegra demókrata, verði næsti kanslari.

„Við höfum unnið þessar kosningar,“ sagði Merz í fyrstu ræðu sinni eftir að útgönguspár voru birtar við dynjandi lófatak. 

Hann hefur farið mikinn í undanfara kosninganna og fór nýlega ófögrum orðum um vinstri flokka landsins.

„Vinstrið er búið. Það er enginn vinstri meirihluti og engin vinstri pólitík lengur í Þýskalandi. Við höfum öll spilin á okkar hendi en ekki grænu og vinstri furðufuglarnir,“ sagði Merz á kosningafundi sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×