Erlent

Þjóð­verjar ganga að kjör­borðinu: „Vinstrið er búið“

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Friedrich Merz, kanslaraefni Kristilegra demókrata, á kosningafundi í gær.
Friedrich Merz, kanslaraefni Kristilegra demókrata, á kosningafundi í gær. EPA

Evrópa fylgist grannt með Þjóðverjum þegar þeir ganga að kjörborðinu í dag. Skoðanakannanir benda til þess að Friedrich Merz, leiðtogi Kristilegra demókrata verði næsti kanslari.

Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum mælast Kristilegir demókratar með um þrjátíu prósenta fylgi. Næst stærstur mælist Valkostur fyrir Þýskaland, Afd, harðlínu hægri flokkur, með um tuttugu prósenta fylgi.

Sósíaldemókratar mælast svo með um fimmtán prósenta fylgi, Græningjar með um þrettán. Die linke, vinstri flokkur, mælist með um sjö prósent og aðrir mælast um fimm prósent. Um fimmtungur kjósenda sagðist óákveðinn.

Vinna ekki með Afd

Kosningarnar snúast um staðnaðan efnahag Þýskalands, sem sprengdi fráfarandi meirihluta, orkumál, húsnæðiskostnað og hælisleitenda- og innflytjendamál.

Líklegast þykir að Kristilegir demókratar myndi ríkissjórn með Sósíaldemókrötum verði það hægt. Báðir flokkar hafa neitað að vinna með Afd.

Merz sagði nýlega í viðtali að stuðningur bandaríska varaforsetans JD Vance við AfD og breytt samskipti við Trump mörkuðu miklar sviptingar á pólitíska og efnahagslega sviðinu. Að mati Merz mun Þýskaland ekki sleppa við áhrif þessa.

Hann fór hann einnig ófögrum orðum um vinstri flokkana á kosningafundi sínum.

„Vinstrið er búið. Það er enginn vinstri meirihluti og engin vinstri pólitík lengur í Þýskalandi. Við höfum öll spilin á okkar hendi en ekki grænu og vinstri furðufuglarnir,“ sagði Merz.

Ummælin hafa sætt gagnrýni frá Sósíaldemókrötum sérstaklega sem segja að enginn sem vilji verða kanslari allra Þjóðverja tali svona, og sögðu hann haga sér eins og „mini-Trump.“

Welt og Tagesschau.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×