Í fréttatilkynningu þess efnis segir að Helga komi til Orkusölunnar með áralanga reynslu á sviði markaðsmála og stefnumótunar, auk bakgrunns í stafrænum lausnum og vefþróun. Helga hafi síðustu fjögur ár starfað sem markaðs- og viðskiptaþróunarstjóri hjá Nóa Síríus þar sem hennar helstu verkefni voru meðal annars stefnumótun fyrir vörumerki fyrirtækisins og greining nýrra tekjulinda. Þar áður hafi hún í tæp þrjú ár starfað með innflutt vörumerki Nóa Síríus.
„Við erum spennt að fá Helgu til liðs við okkur. Hún er öflugur og dýrmætur liðsstyrkur, sem sést á því starfi sem hún hefur unnið fyrir Nóa Síríus. Þekking hennar mun styrkja Orkusöluna í vegferð okkar að vera framúrskarandi í markaðsstarfi og þjónustu, auk þess að efla sköpunargleði og skýra stefnu í öllu okkar starfi. Hún mun hjálpa okkur að setja enn meiri kraft í framtíðina og koma þannig Íslandi í stuð!“ er haft eftir Heiðu Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra sölu-, þjónustu- og markaðssviðs Orkusölunnar.
„Markaðsteymi Orkusölunnar hefur byggt upp vörumerki sem keppir á heimsmælikvarða í sínum geira þannig að ég er ótrúlega spennt og auðmjúk að fá þetta verkefni í hendurnar. Raforkumarkaðurinn er í örri þróun með breyttum kröfum samfélagsins og aukinni samkeppni svo það verður gaman að taka þátt í þeim ævintýrum sem framundan eru,” er haft eftir Helgu.