Sjöunda eldgosinu á Sundhnúksgígaröðinni lauk 9. desember síðastliðinn og hefur nú tæpum tveimur mánuðum síðar safnast um það bil jafn mikið af kviku í kvikuhólfið undir Svartsengi og var fyrir eldgosið.
Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur segir að hægst hafi á landrisinu undanfarið.
„Þetta er farið að fletjast mjög mikið út samkvæmt þessum GPS mælum sem eru á svæðinu þá er farið að draga mjög mikið úr risinu.“

Ekki er víst að jarðskjálftavirkni verði mikil fyrir næsta eldgos og því gæti gosið með skömmum fyrirvara.
„Við erum að brjóta þarna upp flekamót og þessu fylgir mikil átök og skjálftar og í byrjun erum við með mikið af skjálftum og góðan fyrirvara, nokkurra klukkutíma fyrirvara, en sú þróun hefur eitthvað aðeins breyst og var öðruvísi í síðasta gosi. Þá komu engir skjálftar eða sáust litlir skjálftar fyrr en þegar gosið var eiginlega byrjað og það er auðvitað óþægilegt.“
Þrýstimælarnir í Svartsengi hafi þó yfirleitt sýnt að kvika sé sé á leiðinni upp hálftíma til klukkustund áður en hún kemur á yfirborðið.
Hann telur ekki fullvíst að atburðarásin síðustu vikur endi með eldgosi þar sem landrisið nú sé aðeins öðruvísi en áður.
„Svona helmingslíkur eða eitthvað svoleiðis að það gerist.“
Þá telur hann að líða fari að lokum eldgosahrinunnar í Sundhnúksgígum og ef það gýs nú gæti það orðið eitt síðasta gosið þar í bili.
„Það er ekkert ólíklegt að þessi Sundhnúkssyrpa sé að koma að endalokum.“