Níu menn börðust fyrir lífi sínu þegar báturinn strandaði við brimklettana út af Hólahólum yst á Snæfellsnesi 14. mars 1987. Lengi hírðust þeir allir inni í litlum kortaklefa - ýmist á kafi í sjó eða ekki og voru sumir vonlitlir um að halda lífi.

„Þetta voru stöðug brot. Svo hreinsaðist allt út úr brúnni – aðeins rör og vírar stóðu út úr þilinu. Á endanum gátum við varla haldið okkur. Hallinn var það mikill að maður var bara láréttur í loftinu,“ segir Bergþór.
Ég hefði átt að borga líftrygginguna
Skipbrotsmennirnir vissu að þyrla var þeirra eina von, en þeir höfðu ekki vitneskju um hvort aðstæður byðu upp á þyrla kæmist til þeirra.
„Ég hugsaði heim til konu og tveggja barna,“ segir Sigursteinn Smári Karlsson, matsveinn á Barðanum.
„Það skaust upp í hugann að ég var ekki búinn að borga iðgjaldið af líftryggingunni: „Ohh, ég hefði átt að borga þetta um áramótin.“
Þegar þyrlan TF-SIF kom yfir slysstað var ekkert lífsmark að sjá um borð. Gríðarlega erfitt var að koma siglínu niður til skipbrotsmannanna. Þeir voru svo hífðir upp við illan leik, sumir sitjandi í björgunarlykkjunni.

Páll Halldórsson, fyrrum þyrluflugstjóri, segir í þættinum að þá hefði honum ekki litist á blikuna og bað til Guðs um að allt endaði vel.
Þetta var stærsta íslenska þyrlubjörgunin fram að þessu og markaði þáttaskil í rekstri flugdeildar Landhelgisgæslunnar.
Í þættinum hitta þeir Bergþór og Smári manninn sem bjargaði lífi þeirra, Pál, í fyrsta skipti eftir björgunina. Bergþór skírði dóttur sína í höfuðið á björgunarþyrlunni TF-SIF. Hún heitir Jórunn Sif.
Þáttinn má sjá hér: