Fótbolti

Freyr fagnaði sigri í fyrsta leiknum með Brann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Freyr Alexandersson stýrði Brann til sigurs þrátt fyrir að vera án margra lykilmanna. Góð byrjun hjá íslenska þjálfaranum.
Freyr Alexandersson stýrði Brann til sigurs þrátt fyrir að vera án margra lykilmanna. Góð byrjun hjá íslenska þjálfaranum. @sportsklubbenbrann

Freyr Alexandersson byrjaði vel sem þjálfari norska úrvalsdeildarliðsins Brann. Liðið spilaði fyrsta leikinn undir hans stjórn þegar Åsane mætti liðinu í æfingarleik.

Brann vann leikinn 4-2. Aune Heggebö skoraði tvö mörk og þeir Niklas Castro og Markus Haaland skoruðu eitt mark.

Freyr þurfti að stilla upp liði án margra leikmanna úr aðalliðinu sem eru að glíma við meiðsli eða veikindi.

Niklas Castro skoraði fyrsta markið undir stjórn Freys þegar hann fylgdi á eftir stangarskoti Mads Berg Sande. Sande lagði líka upp annað markið sem Heggebö skoraði.

Fyrra mark Åsane kom úr vítaspyrnu en það seinna eftir að vörnin galopnaðist hægra megin.

Markus Haaland skoraði þriðja markið með laglegu langskoti og kom Brann í 3-2 og lokamark leiksins skoraði Heggebö síðan á fjærstönginni.

Það er hægt að sjá svipmyndir frá leiknum hér fyrir neðan. Það er mikill áhugi á liðinu í Bergen og Bergens Tidende sýndi leikinn í beinni hjá sér.

Næsti æfingaleikur Brann er á mótoi KBJ á fimmtudaginn í næstu viku. Liðið fer síðan í framhaldinu suður til Marbell þar sem liðið verður í þriggja og hálfri vikna æfingabúðum í blíðunni á Spáni. Liðið mun einnig spila þrjá æfingaleiki þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×