Foden spilaði aðallega á vinstri kantinum á EM síðasta sumar og tókst ekki fylgja eftir frábæru tímabili með City.
„Ég er svekktur. Ég fékk ekki það sem ég vildi út úr þessu. Það var mjög erfitt að hafa áhrif á leikina í stöðunni sem ég var settur í,“ sagði Foden.
„Eftir síðasta tímabil, þar sem ég var bestur í ensku úrvalsdeildinni og spilaði á miðjunni, fannst mér erfitt að venjast stöðunni. Ég get spilað ýmsar stöður og varð að reyna að gera það besta úr hlutunum. Mér fannst England aldrei komast í gang eða spila eins vel og við getum.“
Þrátt fyrir misjafna spilamennsku komst enska liðið í úrslitaleik EM þar sem það tapaði fyrir því spænska, 2-1. Eftir mótið hætti Southgate sem landsliðsþjálfari Englands eftir átta ára starf.
Foden og félagar hans í City taka á móti Club Brugge í lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Englandsmeistararnir þurfa að vinna leikinn til að komast í umspil um sæti í sextán liða úrslitum.