Erlent

Segja yfir­völd hafa komið í veg fyrir björgun þriggja drengja

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lík drengjanna fundust frosin við landamærin.
Lík drengjanna fundust frosin við landamærin. No Name Kitchen/Collettivo Rotte Balcaniche

Mannúðarsamtök segja yfirvöld í Búlgaríu hafa hunsað neyðarkall og hindrað sjálfboðaliða í því að bjarga þremur egypskum drengjum sem síðar fundust frosnir til dauða nærri landamærum Búlgaríu og Tyrklands.

Samtökin, No Name Kitchen og Collettivo Rotte Balcaniche, hafa sett saman skýrslu um málið.

Fjöldi fólks freistar þess að komast til Evrópu um fyrrnefnd landamæri en svæðið er erfitt yfirferðar og ekki síst yfir vetrartímann. Samkvæmt samtökunum var þeim gert viðvart um það 27. desember síðastliðinn að símtöl hefðu borist í neyðarlínu hjáparsamtaka þar sem talað var um þrjá táninga í hættu.

Neyðarlínunni bárust hnit til að staðsetja drengina og sjálfboðaliðar gerðu ítrekaðar tilraunir til að koma þeim áfram til viðbragðsaðila. Þá freistuðu þeir þess einnig að komast sjálfir á staðinn.

Samtökin segja lögregluyfirvöld hins vegar hafa hindrað för sjálfboðaliðanna, þrátt fyrir að hafa verið sýndar myndir af einum drengjanna í snjónum.

Drengirnir þrír, Ahmed Samra, 17 ára, Ahmed Elawdan, 16 ára, og Seifalla Elbeltagy, 15 ára, fundust seinna látnir. Við lík Samra mátti sjá fótspor og hundaspor, sem samtökin segja benda til þess að lögregla hafi fundið drengina lifandi eða liðna en látið þá liggja áfram.

Síðar, þegar komið var aftur að líkunum, höfðu sporin verið máð út.

Í skýrslunni segir að yfirvöld hafi ítrekað hamlað björgunaraðgerðum sjálfboðaliða. Þeir hafi meðal annars verið áreittir af landamæravörðum og ein kona látin afklæðast á meðan verðirnir leituðu í fórum hennar.

Samtökin hafa kallað eftir rannsókn á framgöngu yfirvalda í Búlgaríu í garð flóttafólks og sjálfboðaliða.

Guardian fjallar ítarlega um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×