Samninganefndir allra aðildarfélaga Kennarasambands Íslands hittust á stöðufundi í húsakynnum Kennarasambandsins í dag. Algjör pattstaða er uppi í kjaraviðræðum kennara og sveitarfélaga og ríkis og Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari hefur sagt að hann telji ekki ástæðu til að boða til fleiri fundi í bili.
Á fundi kennara í dag lýstu samninganefndir allra aðildarfélaga Kennarasambands Íslands yfir miklum vonbrigðum með stöðu kjaraviðræðna og því virðingarleysi sem hafi birst undanfarið í garð kennara.
Magnús Þór Jónsson formaður Kennarasambands Íslands segir tímbært að stjórnvöld stígi inn í deiluna.
„Eins og þetta birtist okkur núna þá höfum við áhyggjur af því að þeir sem hafi raunverulegar áhuga og áhyggjur af kerfinu séu kennarar og mögulega einhverjir aðilar, og reyndar samfélagið allt, en þeir sem ráða í þessu landi séu ekki tilbúnir að leysa málin. Það eru þau sem þurfa að gera það og auðvitað þurfa stjórnvöld að koma inn í þessa deilu. Það er löngu orðið ljóst.“
Magnús segir kennara hafa lagt fram tilboð á fundi með samninganefndum ríkis og sveitarfélaga um síðustu helgi sem að þeirra mati hefði getað komið í veg fyrir að til boðaðra verkfalla komi eftir viku.
„Við lögðum fram tilboð að leiðum sem myndu verða styttri skref í átt að þessari jöfnun og um leið gætum við farið yfir ákveðin umræðuefni sem munu þurfa að koma upp og þar með koma í veg fyrir aðgerðir. En um leið verða vegvísir inn í samtal.“
Formaður samninganefndar sveitarfélaga sagði í fréttum okkar í gær að viðræðurnar hafi strandað á launakröfum kennara sem séu óraunhæfar en umbeðnar hækkanir séu taldar í tugum prósenta.
„Þessar tölur sem að við höfum bent á, bestu fáanlegu upplýsingar benda til tugprósenta launahækkana. Það eru margir óvissuþættir þar á leiðinni. Virðismat hefur verið nefnt og önnur kjör en í því tilboði sem við lögðum fram á sunnudaginn þá horfðum við til þess að bita þann fíl niður og værum tilbúin til þess að taka um það umræðu og þar með svona vera á leiðinni en taka styttri skref. Því hefur mögulega verið hafnað en við kannski vitum það ekki því formlegt svar hefur nú ekki endilega borist.“