Handbolti

Gætið ykkar: Maðurinn sem vildi stýra Ís­landi með Snorra

Sindri Sverrisson skrifar
Dagur Sigurðsson er undir mikilli pressu sem landsliðsþjálfari Króata á heimavelli í Zagreb.
Dagur Sigurðsson er undir mikilli pressu sem landsliðsþjálfari Króata á heimavelli í Zagreb. Getty/Luka Stanzl

Íslenska karlalandsliðið í handbolta þarf á öllum sínum kröftum að halda í kvöld til að vinna Króata á heimavelli þeirra í Zagreb, í afar mikilvægum leik á HM. Í liði Króata má finna frábæra leikmenn og þjálfarinn Dagur Sigurðsson veit sjálfsagt allt sem hægt er að vita um íslenska liðið.

Dagur tók við Króatíu fyrir tæpu ári síðan og kom liðinu á Ólympíuleikana í París í fyrra. Nú er gríðarleg pressa á honum að skila Króötum árangri á heimavelli á HM.

Staðan gæti verið allt önnur því þegar HSÍ var í þjálfaraleit, fyrstu mánuði ársins 2023, eftir brotthvarf Guðmundar Guðmundssonar þá ræddu forkólfar sambandsins við Dag varðandi möguleikann á að taka við landsliðinu. Eins og frægt varð þá lýsti Dagur þeim fundi sem hreinasta leikþætti.

Eins og Vísir greindi frá á sínum tíma þá voru Dagur og Snorri opnir fyrir því að taka við landsliðinu saman. Sá möguleiki virðist þó aldrei hafa verið ræddur af alvöru á þeim langa tíma sem að forráðamenn HSÍ unnu að ráðningu nýs þjálfara áður en Snorri var ráðinn 1. júní 2023. 

Núna mætast þeir Dagur og Snorri hins vegar á handboltavellinum í afar fróðlegri rimmu sem ræður miklu um framhaldið hjá báðum þjóðum á mótinu.

Króatar töpuðu eina leiknum þar sem reynt hefur á þá til þessa á HM, 28-24 gegn Egyptum, og þurfa nauðsynlega á sigri að halda gegn Íslandi í kvöld. Þó að Ísland hafi unnið flottan 35-30 sigur gegn Króötum á EM fyrir ári síðan, og þó að stærstu stjörnur Króata hafi helst úr lestinni, þá velkist enginn í vafa um hve þungt próf liggur fyrir strákunum okkar í Zagreb.

Stærstu stjörnurnar meiddust

Miðjumennirnir Luka Cindric og Domagoj Duvnjak áttu að leiða Króata til verðlauna á mótinu en hafa báðir átt við meiðsli að stríða. Ekki virðist þó alveg útilokað að hið minnsta annar þeirra spili í kvöld. Einhver orðrómur var um rifrildi á milli Dags og Cindric en Dagur þvertók fyrir það í viðtali við Vísi.

Ivan Martinovic er hættuleg, örvhent skytta úr Rhein-Neckar Löwen sem Íslendingar sluppu við að mæta á EM fyrir ári því hann hafði þá meiðst, og við hlið hans hafa hornamennirnir Filip Glavas og Mario Sostaric verið heitir. Þá hefur David Mandic, vinstri hornamaður toppliðs Melsungen í Þýskalandi, jafnað sig af meiðslum og ætti að styrkja króatíska liðið.

Jafnoki Viktors Gísla?

Sá sem ber þó kannski helst að vara við fyrir leikinn í kvöld er hinn 22 ára gamli markvörður Dominik Kuzmanovic. Þarna gæti mögulega verið kominn jafnoki Viktors Gísla Hallgrímssonar, í fyrsta sinn á mótinu, en þó ekki miðað við stórkostlega frammistöðu Viktors hingað til.

„Dominik Kuzmanovic er einn mest spennandi og hæfileikaríkasti markvörðurinn í evrópskum handbolta,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson eftir að hafa tekið á móti Kuzmanovic hjá þýska félaginu Gummersbach síðasta sumar.

Króatar þurfa enn frekar á Kuzmanovic að halda í ljósi þess að Matej Mandic getur ekki spilað, eftir árás liðsfélaga í félagsliði hans RK Zagreb.

Kuzmanovic er í fjórða sæti yfir flestar markvörslur í þýsku deildinni í vetur og hann vakti gríðarlega athygli á EM í fyrra með stórbrotnum leik í 30-24 sigri á Þjóðverjunum hans Alfreðs Gíslasonar. Þar varði Kuzmanovic 22 skot og var maður leiksins. Hann var einnig með 42% markvörslu í leik við Frakka sem enduðu á að vinna mótið. Kuzmanovic endurtók svo leikinn gegn Þjóðverjum í Ólympíuumspili í mars í fyrra og varði tæplega helming skota sem hann fékk á sig.

Það gæti því reynst þrautin þyngri fyrir íslenska liðið að finna fyrst leiðir í gegnum vörnina, sem Dagur hefur án efa fóðrað með fullt af gagnlegum upplýsingum, og svo framhjá Kuzmanovic.

Gangi það vel, og vinni Ísland sigur, enda strákarnir okkar efstir í milliriðli IV, sama hvernig fer gegn Argentínu á sunnudaginn.


Tengdar fréttir

Snorri Steinn getur bætt met Gumma Gumm í kvöld

Íslenska karlalandsliðið í handbolta hefur unnið fjóra fyrstu leiki sína á heimsmeistaramótinu í ár og jafnar bæði og slær met með sigri í fimmta leiknum í röð í kvöld.

„Þetta er svona svindlmaður“

Viktor Gísli Hallgrímsson hefur átt magnað heimsmeistaramót til þessa enda hefur hann átt stórleiki í íslenska markinu leik eftir leik. Strákarnir í Besta sætinu spöruðu ekki stóru orðin um einn besta markvörðinn á heimsmeistaramótinu.

„Fór langt á harða gæjanum og hrokanum“

Fátt hefur glatt meira á heimsmeistaramótinu í Zagreb en frammistaða Arons Pálmarssonar. Hann hefur gengið í endurnýjun lífdaga í landsliðsbúningnum og leikið við hvurn sinn fingur.

„Þeir voru pottþétt að spara“

„Mér finnst við ennþá eiga inni einn gír en við erum búnir að gera þetta mjög fagmannlega hingað til og þurfum að gera það áfram,“ segir Elliði Snær Viðarsson, sem hefur, líkt og aðrir landsliðsmenn Íslands, leikið vel á HM í Zagreb.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×