Innherji

Setja á fót fimm milljarða fram­taks­sjóð sem fjár­festir í Bret­landi

Hörður Ægisson skrifar
Hannes Frímann Hrólfsson, framkvæmdastjóri Kviku eignastýringar, segir með stofnun Hörpu-sjóðsins sé verið að nýta reynslu Kviku af breska markaðnum.
Hannes Frímann Hrólfsson, framkvæmdastjóri Kviku eignastýringar, segir með stofnun Hörpu-sjóðsins sé verið að nýta reynslu Kviku af breska markaðnum.

Kvika eignastýring hefur klárað fjármögnun á nýjum framtakssjóði, sem ber heitið Harpa Capital Partners II, en tekið var við áskriftum fyrir jafnvirði meira en fimm milljarða íslenskra króna. Sjóðsfélagar samanstanda af stórum hópi innlendra og breskra fjárfesta en Harpa mun fjárfesta einungis í fyrirtækjum í Bretlandi þar sem Kvika er með starfsemi.

Upphaflega var stefnt að því að framtakssjóðurinn yrði um 20 til 30 milljónir sterlingspunda að stærð – að lokum reyndist hann vera ríflega 30 milljónir punda – og er sjóðurinn því yfir efri mörkum þess sem var ráðgert. Alls eru meira en fimmtíu fjárfestar í sjóðnum, þar á meðal er Kvika banki sjálfur.

Hannes Frímann Hrólfsson, framkvæmdastjóri Kviku eignastýringar, segir með stofnun Hörpu-sjóðsins sé verið að nýta reynslu Kviku af breska markaðnum og halda áfram að bjóða upp á áhugaverða fjárfestingarkosti fyrir viðskiptavini.

„Við teljum að hér séu spennandi tækifæri til að styðja við og auka verðmætasköpun í ört vaxandi fyrirtækjum sem búa yfir skýrum vaxtarhorfum. Við erum afar ánægð með hve mikill áhugi hefur verið á sjóðnum, enda hefur Kvika lengi unnið markvisst að því að byggja upp virk tengsl við innlenda og erlenda fjárfesta,“ er haft eftir honum í tilkynningu.

Með samstarfi Kviku eignastýringar og Kviku Securities í Bretlandi er sjóðnum tryggt öflugt tengslanet og fagþekking á breska markaðinum.

Á meðal þeirra sem skipa stjórn Hörpu-sjóðsins er Ágúst Guðmundsson, fjárfestir og annar stofnanda Bakkavarar en aðrir stjórnarmenn eru Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku, og Guðjón Reynisson, fyrrverandi forstjóri Hamleys í London, stjórnarmaður í Kviku og stjórnarformaður Festi.

Við birtingu uppgjörs Kviku á þriðja fjórðungi í nóvember, eins og Innherji fjallaði um, var sagt frá því að Kvika eignastýring væri að undirbúa markaðssetningu á nýjum framtakssjóði í samstarfi við dótturfélagið Kviku Securities Ltd. (KSL) og væri búinn að fá leyfi frá eftirlitsstofnunum í Bretlandi.

Stofnun Hörpu er sögð byggja á árangri Kviku í framtaksfjárfestingum í Bretlandi, að því er segir í tilkynningu, en á síðastliðnum árum hefur bankinn, ásamt samstarfsaðilum og meðfjárfestum, tekið þátt í verkefnum þar sem lögð hefur verið áhersla á fjárfestingar í smærri fyrirtækjum með mikla vaxtarmöguleika og tækifæri á framúrskarandi ávöxtun.

Úr kynningu af fjárfestadegi Kviku banka í nóvember í fyrra.

„Með samstarfi Kviku eignastýringar og Kviku Securities í Bretlandi er sjóðnum tryggt öflugt tengslanet og fagþekking á breska markaðinum. Markmið sjóðsins er að hámarka ávinning fyrir hluthafa sína og skapa jákvæð áhrif á þau fyrirtæki sem fjárfest er í, m.a. með bættri stjórnarhæfni, auknum sveigjanleika í rekstri og markvissri markaðssókn,“ segir í tilkynningunni.

Mikill viðsnúningur hefur orðið á starfsemi Kviku í Bretlandi á síðustu misserum. Eftir nokkurt tap á starfseminni þar í landi á árinu 2023 skilaði reksturinn skilað um 900 milljóna hagnaði á fyrstu níu mánuðum ársins í fyrra. Tekjurnar jukust þannig um nærri 1.200 milljónir miðað við sama tímabil árið áður og námu samtals 1.960 milljónum.


Tengdar fréttir

Kvika ætlar að greiða út tuttugu milljarða arð þegar salan á TM klárast

Stjórnendur Kviku hafa ákveðið að útgreiðsla til hluthafa bankans vegna sölunnar á TM til Landsbankans fyrir um ríflega þrjátíu milljarða króna verði talsvert hærri en áður hefur verið gefið út. Þrátt fyrir það mun eiginfjárhlutfall Kviku hækka verulega við söluna og bankinn áætlar að á meðal annars grunni þess geti hann í framhaldinu tvöfaldað lánabókina á næstu þremur árum.

Hagnaður Kviku átt­faldast samtímis vexti á öllum tekju­sviðum bankans

Mikill viðsnúningur var í rekstri Kviku á þriðja ársfjórðungi þegar bankinn hagnaðist um ríflega 1,8 milljarða af áframhaldandi starfsemi, sem jafngildir um 22,4 prósenta arðsemi, og jókst hann um áttfalt á milli ára þar sem allar einingar voru um eða yfir áætlun. Eftir nokkurt tap á starfsemi Kviku í Bretlandi í fyrra hefur reksturinn núna skilað um 900 milljóna hagnaði á fyrstu níu mánuðum ársins en bankinn áformar að markaðssetja nýjan framtakssjóð í árslok sem á að fjárfesta í Bretlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×