Erlent

Hæsta­réttar­dómarar skotnir til bana í Tehran

Samúel Karl Ólason skrifar
Fáni Íran með Tehran í bakgrunni.
Fáni Íran með Tehran í bakgrunni. Getty

Tveir Hæstaréttardómarar voru skotnir til bana og sá þriðji særður í banatilræði í eða við byggingu Hæstaréttar í Tehran í Íran í morgun. Árásarmaðurinn er sagður hafa svipt sig lífi eftir árásina.

Dómararnir sem dóu hétu Ali Razini og Mohammad Moqiseh. Þriðji dómarinn og einn öryggisvörður særðust í árásinni. Báðir munu hafa verið fluttir á sjúkrahús.

Svo virðist sem dómararnir hafi verið skotnir til bana fyrir utan dómshúsið en einnig hefur því verið haldið fram að árásin hafi verið gerð á skrifstofum þeirra.

Fréttaveitan IRNA, sem rekin er af klerkastjórn Íran, segir að árásarmaðurinn sé ekki talinn tengjast neinu máli sem er á borði Hæstaréttar um þetta leyti. Eins og áður segir svipti árásarmaðurinn sig lífi en það er hann sagður hafa gert þegar reynt var að handtaka hann.

Ekki liggur fyrir hver árásarmaðurinn er eða hvert tilefni árásarinnar var. Hann er sagður hafa verið vopnaður skammbyssu.

IRNA vitnar í yfirlýsingu frá Hæstarétti Íran um að dómararnir sem dóu hafi átt sér langa sögu í að berjast gegn glæpum sem ógna þjóðaröryggi, njósnum og hryðjuverkastarfsemi.

Yfirvöld í Íran tóku rúmlega níu hundruð manns af lífi í fyrra, samkvæmt Mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna. Dauðadómar þar í landi eru staðfestir af Hæstarétti.

Moqiseh hafði verið beittur refsiaðgerðum af yfirvöldum í Bandaríkjunum vegna dóma hans yfir blaðamönnum og notendum internetsins. Razini sat á árum áður í sérstöku ráði sem samþykkti aftökur þúsunda pólitískra fanga í Íran. Þetta fólk var tekið af lífi í fjölmörgum borgum landsins yfir fimm mánaða tímabili árið 1988.

Razini lifði af banatilræði árið 1998 þegar sprengju var komið fyrir við bíl hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×