Félögin í ensku úrvalsdeildinni þurfa að uppfylla kröfur um fjárhagslegt aðhald ella eiga á hættu að verða refsað, eins og gerðist á síðustu leiktíð þegar stig voru í tvígang tekin af Everton, samtals átta stig eftir áfrýjun, og fjögur stig voru tekin af Nottingham Forest.
Félögin þurfa að gæta þess að tapa ekki meira en samtals 105 milljónum punda yfir hvert þriggja ára tímabil, og nú var frammistaða þeirra til ársins 2024 til skoðunar.
Talið var að Leicester City ætti á hættu að verða kært núna, eftir að hafa forðast stigafrádrátt í september síðastliðnum. Félagið hafði þá áfrýjað kæru ensku úrvalsdeildarinnar, vegna taps á árunum fram til 2023, og óháð nefnd kvað upp úr um að úrvalsdeildin hefði ekki lögsögu til að refsa Leicester því félagið hefði fallið niður um deild sumarið 2023.
BBC segir að auk Leicester hafi Aston Villa, Newcastle United og Everton verið talinn hafa hætt sér næst 105 milljóna punda viðmiðinu um mesta leyfilega tap, á síðustu þremur árum fram til 2024.