Enski boltinn

„Við fengum ekki það sem við áttum skilið“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Mikel Arteta ræðir hér við sína menn áður en framlengingin hófst á Emirates-leikvanginum í dag.
Mikel Arteta ræðir hér við sína menn áður en framlengingin hófst á Emirates-leikvanginum í dag. Vísir/Getty

Mikel Arteta knattspyrnustjóri Arsenal sagði liðið haft mikla yfirburði í leik dagsins gegn Manchester United. Arsenal tapaði eftir vítakeppni og féll úr leik í FA-bikarnum.

Leikur Arsenal og Manchester United bauð upp á flest það sem einkennir góðan fótboltaleik. Liðin skoruðu sitt hvort markið í venjulegum leiktíma auk þess sem Manchester United missti mann af velli og Arsenal misnotaði vítaspyrnu.

Í vítaspyrnukeppninni var það svo Kai Havertz sem var sá eini sem klikkaði en Altay Bayindir varði spyrnu hans.

„Það er ótrúlegt að við skyldum ekki vinna. Það er í raun þannig sem er hægt að draga þetta saman. Yfirburðir okkar gagnvart andstæðingnum og allt sem við gerðum til að reyna að vinna. Við áttum þetta ekki skilið, við fengum ekki það sem við áttum skilið,“ sagði Arteta í viðtali eftir leik.

„Það er þetta með að koma boltanum í netið. Við gerðum það einu sinni. Miðað við fjölda atvika, færa og vítaspyrna þá náðum við þessu ekki. Við förum ótrúlega sorgmæddir heim en ég get ekki verið stoltari af leikmönnunum mínum.“

Kai Havertz var sá eini sem klikkaði á víti í vítaspyrnukeppninni og Arteta ræddi við hann eftir leikinn.

„Ég sagði við hann og allt liðið að ég elskaði þá. Sem einstaklingar og lið þá eru þeir frábærir.“

„Það er ótrúlegt hvað þetta lið gerir á þriggja daga fresti, sama hvað gerist síðan. Ég ætla ekki að missa sjónar á því. Ekki vegna úrslita í leikjum eða því við áttum ekki þessar reglur skilið. Hvað getum við gert betur, reynum að gera það. Það er erfitt að ná þessu, þetta snýst um tilfinningar og sjálfstraust.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×