Erlent

Tugir slasaðir eftir á­rekstur tveggja spor­vagna

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Um 130 slökkviliðsmenn voru kallaðir á vettvang.
Um 130 slökkviliðsmenn voru kallaðir á vettvang. AP/Pascal Bastien

Sporvagnar lentu saman á aðallestarstöðinni í Strassborg í Frakklandi í gær með þeim afleiðingum að 68 slösuðust.

Samkvæmt umfjöllun breska ríkisútvarpsins rann annar sporvagninn niður brekku og hafnaði á kyrrstæðum sporvagni á stöðinni. Tugir manna voru inni í báðum sporvögnunum þegar áreksturinn átti sér stað og skapaðist sannkallað óreiðuástand og mikill reykur barst frá sporvögnunum.

Talsmaður sveitarfélagsins sem breska ríkisútvarpið ræddi við sagði að rannsókn væri hafin á slysinu en að ekkert dauðsfall hefði verið skráð. Ekki liggur grunur um að spellvirki lægi að baki slysinu.

„Við heyrðum hávært áreksturshljóð, mikinn hvell,“ hefur fréttaveitan AFP eftir sjónarvotti. Hann segist hafa séð annan sporvagninn bakka á mikilli ferð framan á hinn.

Stöðin hefur verið girt af og lokað hefur verið fyrir aðgengi að henni. Slökkvilið á svæðinu hefur einnig brýnt fyrir íbúum á svæðinu að trufla ekki viðbragðsaðila við vinnu sína.

Samkvæmt Rene Cellier, slökkviliðsstjóra í Bas-Rhin-héraði, er mikið um beinbrot og höfuðhögg meðal hinna slösuðu en engir áverkanna eru lífshættulegir.

„Svo eru um hundrað manns sem hlutu enga sérstaka áverka en verið er að hlúa að þeim,“ segir hann í samtali við breska ríkisútvarpið.

Um 50 slökkviliðsbílar og 130 slökkviliðsmenn voru kallaðir á vettvang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×