Manchester City er komið í næstu umferð ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu en liðið vann 8-0 risasigur á Salford City á heimavelli í dag.
Leikurinn í dag var áhugaverður fyrir ýmsar sakir. Liðin koma bæði frá Manchesterborg og þá býr þjálfari City, Pep Guardiola, í Salford-hverfinu og var því að mæta sínu hverfisliði. Saga Salford City er sömuleiðis áhugaverð en félagið er í eigu fyrrum stórstjarna Manchester United og mátti sjá þá Nicky Butt og Paul Scholes í stúkunni í dag og þá var Ryan Giggs hluti af starfsliði á varamannabekknum.

Leikurinn var ójafn í alla staði og það þrátt fyrir að Erling Haaland hafi fengið frí og sæti í stúkunni á Etihad-leikvanginum.
Jeremy Doku kom City í 1-0 á 9. mínútu og þeir Divin Mubama og Nico O´Reilley bættu tveimur mörkum við í fyrri hálfleiknum og City því með 3-0 forystu í hálfleik. Salford fór reyndar illa með góð tækifæri til að minnka muninn í 2-1 í fyrri hálfleiknum sem hefði verið áhugaverð staða að fylgjast með.

Í síðari hálfleiknum héldu leikmenn City áfram að hamra járnið á meðan það var heitt. Jack Grealish skoraði fjórða mark liðsins á 49. mínútu og síðan var komið að James McAtee sem skoraði þrjú mörk á nítján mínútum auk þess sem Doku bætti við einu marki þar á milli og staðan orðin 8-0.
Manchester City er því komið í 32-liða úrslit ensku bikarkeppninnar og mögulegt að þessi stórsigur gefi liðinu aukið sjálfstraust eftir erfiða tíma í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.