Sport

Leyfa ekki leik­manni sínum að reyna við eitt eftir­sóttasta metið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Saquon Barkley verður hvíldur í síðasta deildarleik Philadelphia Eagles en framundan er úrslitakeppnin þar sem liðið ætlar sér að ná langt.
Saquon Barkley verður hvíldur í síðasta deildarleik Philadelphia Eagles en framundan er úrslitakeppnin þar sem liðið ætlar sér að ná langt. Getty/Mitchell Leff

Saquon Barkley, hlaupari Philadelphia Eagles, á möguleika á því að bæta eitt virtasta og eftirsóttasta metið í NFL-deildinni en nú lítur út fyrir það að hann fái hreinlega ekki tækifæri til þess.

Það eru þó ekki meiðsli, leikbann eða annað slíkt sem kemur í veg fyrr það.

Nick Sirianni, þjálfari Eagles, hefur tekið þá ákvörðun að hvíla alla lykilmenn liðsins og Barkley er að sjálfsögðu í þeim hópi.

Liðið hefur þegar tryggt sér sæti og stöðu í úrslitakeppninni og ekkert breytir því í lokaumferðinni.

Barkley, sem hefur átt magnað fyrsta tímabil með Eagles, varð í síðasta leik aðeins níundi leikmaður sögunnar til að komast yfir tvö þúsund hlaupajarda á einu tímabili.

Barkley hefur alls farið 2005 jarda með boltann í höndunum í leikjum sextán og er nú aðeins 101 jarda frá metinu sem er í eigu Eric Dickerson og var sett árið 1984.

Dickerson spilaði bara sextán leiki en það voru fleiri leikir í tímabilinu þá. Dickerson bætti þá met O. J. Simpson sem var sá fyrsti i sögunni til að komast yfir tvö þúsund jarda. Simpson náði því í aðeins fjórtán leikjum.

Barkley hefur náð að fara yfir hundrað jarda í ellefu af sextán leikjum sínum. Það ættu því að vera góðar líkur á því að hann myndi slá metið fengi hann að spila.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×