Sport

Marg­faldur Ólympíuverðlaunahafi skiptir um í­þrótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emma Jörgensen fagnar hér bronsverðlaunum sínum á ÓIympíuleikunum í París í haust.
Emma Jörgensen fagnar hér bronsverðlaunum sínum á ÓIympíuleikunum í París í haust. Getty/Charles McQuillan

Danski kajakræðarinn Emma Jörgensen hætti keppni í sinni íþrótt eftir Ólympíuleikana í París í haust en nú ætlar hún að byrja aftur en bara í annarri íþrótt.

Jörgensen er 28 ára gömul og vann sín fjórðu Ólympíuverðlaun á leikunum í París þegar hún tók brons í 1500 metra kajakkappróðri. Hún vann silfur 2016 og brons 2020 í sömu grein.

Hún hefur einnig unnið þrenn gullverðlaun og alls níu verðlaun á heimsmeistaramótum í kajakræðri.

Eftir leikana í París tilkynnti Emma að hún væri hætt keppni í sinni íþrótt. Það liðu þó bara nokkrir mánuðir í aðra stóra tilkynningu hjá henni.

Danir fengu nefnilega að vita það yfir hátíðirnar að einn mest verðlaunaði íþróttamaður þeirra á Ólympíuleikum hefur sett stefnuna á næstu Ólympíuleika en bara í allt annarri íþrótt.

Jörgensen hefur skipt yfir í frjálsar íþróttir og mun nú keppa í spjótkasti.

„Ég veit að þetta verður erfitt en það er ekki eins og ég sé á byrjunarreit að byggja upp vöðvamassa,“ sagði Jörgensen við danska ríkisútvarpið.

„Ég bý að mikilli þekkingu og hreinum styrk frá kajakróðrinum og það mun hjálpa mér. Ég vonast síðan til að vera fljót að bæta mig,“ sagði Jörgensen.

Hún hefur sett markmiðið á að keppa í spjótkasti á Ólympíuleikunum í Los Angeles 2028.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×