Erlent

„Svarta ekkjan“ fannst látin

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hof í hæðunum yfir Kyoto í Japan.
Hof í hæðunum yfir Kyoto í Japan. Getty

Eldri kona sem var dæmd til dauða í Japan fyrir áratug fyrir að hafa banað elskhugum sínum með blásýru fannst látin í fangelsisklefa sínum í gær. Hún var 78 ára og hafði hlotið viðurnefnið „svarta ekkjan“.

Chisako Kakehi var sakfelld fyrir að myrða þrjá menn, þeirra á meðal eiginmann sinn, og fyrir tilraun til að bana þeim fjórða í dómsmáli sem skók Japan árið 2014.

Hæstiréttur tók dóm Kakehi til skoðunar árið 2021 og staðfesti hann. Dómari í málinu vísaði til þess að Kakehi hefði eitrað fyrir mönnum eftir að hafa öðlast traust þeirra sem lífsförunautur.

„Þetta var útpældur og grimmur glæpur þar sem ásetningur um manndráp var mikill,“ sagði dómarinn.

Talið er að Kakehi hafi orðið sér úti um á annan milljarð króna í líftryggingargreiðslum yfir tíu ára tímabil eftir að mennirnir féllu frá. Hún glataði hins vegar peningunum jafnóðum í misheppnuðum fjárfestingum.

Kakehi notaði stefnumótaþjónustu til að komast í kynni menn sem voru undantekningarlaust eldri og glímdu við veikindi. Hún lagði áherslu á að menn sem hún kæmist í kynni við væru ríkir og barnlausir.

Eitrið fannst í líkama að minnsta kosti tveggja karlmannanna sem hún átti í tygjum við og lögregla fann ummerki eftir blásýru í ruslinu á heimili hennar í Kyoto. Dauðsföll maka hennar voru ekki rannsökuð á sínum tíma þar sem lögregla taldi karlmennina hafa látist af völdum veikinda.

Það var ekki fyrr en lögregla komst að því að banamein Isao Kakehi, 75 ára eiginmanns hennar var blásýrueitrun, að ákveðið var að skoða fyrri andlátin. Komst lögregla að því að mennirnir létust af sömu orsökum.

Frétt CBS.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×