Handbolti

Stór­sigur í toppslag og liðið nú með fjögurra stiga for­ystu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Elvar Örn og Arnar Freyr spiluðu vel saman í kvöld. 
Elvar Örn og Arnar Freyr spiluðu vel saman í kvöld.  Melsungen

Melsungen er í efsta sæti þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta eftir 31-23 sigur í toppslag gegn Burgdorf.

Toppslagur Melsungen og Burgdorf endaði með nokkuð óvæntum stórsigri heimamanna. Liðin voru í fyrsta og öðru sæti deildarinnar fyrir leik en það var mikill munur á spilamennskunni í kvöld.

Melsungen var með yfirhöndina allan tímann og vann að endingu með átta mörkum, 31-23.

Elvar Örn Jónsson gaf þrjár stoðsendingar í leiknum, þar af tvær á línumanninn Arnar Frey Arnarsson sem skoraði þrjú mörk fyrir Melsungen.

Lærisveinar Rúnars Sigtryggsonar í Leipzig unnu líka, öruggan níu marka sigur á útivelli gegn Potsdam. Lokatölur 26-35 eftir lítt spennandi leik sem gestirnir stýrðu frá fyrstu mínútu.

Andri Már Rúnarsson skoraði fjögur mörk og gaf þrjár stoðsendingar, Viggó Kristjánsson skoraði eitt mark og gaf eina stoðsendingu fyrir Leipzig, sem situr í tólfta sæti deildarinnar með fjórtán stig eftir sextán umferðir.

Melsungen er nú með fjögurra stiga forystu á toppnum. Sautjánda umferð verður spiluð 26. og 27. desember, deildin hefst svo aftur eftir heimsmeistaramót þann 8. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×